Tekist á um Landsvirkjun

Höfuðstöðvar Landsvirkjunar.
Höfuðstöðvar Landsvirkjunar. mbl.is/Golli

Gert er ráð fyrir að Landsvirkjun geti staðið við allar skuldbindingar sínar til ársloka 2011 þótt erlendir lánsmarkaðir verði alveg lokaðir íslenskum aðilum á tímabilinu. Þetta kom fram í máli Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra á Alþingi í dag.

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, var málshefjandi í utandagskrárumræðum um fjárhagsstöðu Landsvirkjunar og framtíðarhorfur og stóðu umræður yfir í um hálfa klukkustund.

Það væri stefna Framsóknarflokksins að standa vörð um fyrirtækið. Flokkurinn hefði ávallt staðið í vegi fyrir tilraunum til að einkavæða það.

Eins og flestir vita hefði lánshæfisstaða Landsvirkjunar fallið niður í „ruslflokk“.

400 milljarðar í skuldir?

„Landsvirkjun skuldar geysilegar fjárhæðir og hefur talan 400 milljarðar verið nefnd,“ sagði Vigdís.

Á fjárlögum ársins 2010 sé gert ráð fyrir að ríkið leggi Landsvirkjun til 25 milljarða króna, þótt fyrirtækið telji sig hafa greiðsluþol út árið 2011.

Vegna stöðu fyrirtækisins hefði Vigdís spurt sig þeirrar spurningar hver væri raunverulegur eigandi fyrirtækisins, íslenska ríkið og íslenskur almenningur eða erlendir kröfuhafar.

Fyrirtækið hefði „sprengt upp“ verðmæti eignasafns síns til að geta tekið meiri erlend lán.

Það væri ekki gengismunurinn sem væri að fella Landsvirkjun, því árið 2003 hefði farið að halla verulega undan rekstrinum, þegar sú ákvörðun var tekin að breyta lögum þannig að fyrirtækið gæti stundað fjármálastarfsemi líka.

Líta bæri þá heimild sem fyrirtækinu var veitt til að „leika sér með fé“ mjög alvarlegum augum, sérstaklega í ljósi skuldsetningar fyrirtækisins og ábyrgða ríkisins.

Vísaði hún til þeirrar niðurstöðu eftirlitsstofnunar EFTA að greiða þyrfti ábyrgðargjald vegna 25 milljarða króna fyrirhugaðrar ríkisábyrgðar til handa Landsvirkjun á næsta ári.

„Hvað er það há upphæð sem þarf að inna af hendi fyrst að ríkið erað ábyrgjast Landsvirkjun að fullu upp að 400 milljörðum og erum við þá ekki að brjóta í bága við þessar reglur sem að eftirlitsstofnun EFTA hefur nú þegar bent okkur á?“ spuri Vigdís.

Krafði hún því næst fjármálaráðherra svara um hver staða Landsvirkjunar væri.

Fjármálaráðherra: Staða fyrirtækisins er góð

Í svari sínu benti fjármálaráðherra á að staða fyrirtækisins væri góð miðað við önnur fyrirtæki. 

Uppgjörsmynt fyrirtækisins væri Bandaríkjadalur og því hefði það ekki lent í neinum „teljandi skakkaföllum“ vegna gengisbreytinga á íslensku krónunni.

Fyrirtækið ætti í sjóði um 90 milljónir Bandaríkjadali sem það gæti gripið til og ætti auk þess kost á samningsbundnu veltiláni fyrir 358 milljónir dala.

Því mætti gera ráð fyrir að fyrirtækið geti staðið við allar skuldbindingar sínar til ársloka 2011 þótt erlendir lánsmarkaðir verði alveg lokaðir íslenskum aðilum á tímabilinu.

Fjárhagsstaðan engu að síður veik

Þrátt fyrir það sé fjárhagsstaðan veik i erlendum samanburði og miðað við þær kröfur sem gerðar séu til erlendra fyrirtækja af þessu tagi. Landsvirkjun hafi staðið í óslitnum fjárfestingum frá miðjum síðasta áratug og þrefaldað raforkuframleiðsluna án þess að eigendur, það er að segja ríkið, hafi lagt til meira eigin fé.

Sagði fjármálaráðherra erlenda banka og lánsfyrirtæki fylgjast grannt með fyrirtækinu, stefna þess væri að ráðast ekki i frekari stórfjárfestingar nema að arðsemin sé fyrirfram tryggð.

Ásbjörn Óttarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gerði fyrirhugaðan orkuskatt að umtalsefni, með þeim orðum að ummæli umhverfisráðherra um skattinn vitnuðu um að það væri stjórninni hollt að lesa fyrstu síður fjárlagafrumvarpsins.

Orkufyrirtækin drifin áfram af lánsfé

Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingar, tók einnig til máls og minnti á að öll íslensk orkufyrirtæki hefðu fjármagnað framkvæmdir sínar á síðasta áratug með lánsfé.

Þar af hefði framkvæmd Kárahnjúkavirkjunnar, „óskabarns Sjálfstæðisflokksins“, verið „algjörlega“ fjármögnuð með lánsfé.

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, rifjaði í ræðu sinni upp að hann hefði á árum áður starfað sem deildarstjóri ríkisábyrgða hjá lánasýslu ríkisins. Hann þekkti því sjálfur til samskipta orkufyrirtækja og ríkis.

Landsvirkjun hefði verið eins og „ríki í ríkinu“. Fyrirtækið hefði hækkað raforkuverð það mikið að það skipti engu máli þótt arðsemi af Kárahnjúkavirkjun yrði á núlli. Að hans mati er víða pottur brotinn í íslenskri stjórnsýslu hvað snertir virkjanamálin. Það fyrirkomulag sé úrelt og kalli á breytingar fjármálaráðherra.

Óvissa matsfyrirtækjanna

Gunnar Bragi Sveinsson, Framsóknarflokki, benti á að matsfyrirtækið Moody's efist um að eigandi Landsvirkjunnar, ríkið, styðji við fyrirtækið. Þar sé á ferð óvissa sem þurfi að eyða.  

Björn Valur Gíslaon, þingmaður Vinstri grænna, sagði skoðun á bókhaldi Landsvirkjunar benda til að orkusala til stóriðju sé ekki að skila fyrirtækið miklu. Því beri að skoða þann möguleika alvarlega að „aðskilja algerlega“ sölu til stóriðju og neytenda, svo almenn raforkusala sé ekki í áhættu stóriðjunnar vegna. Landsvirkjun sé ekki að hagnast neitt á sölu raforku til stóriðju.

Svo eru það björtu hliðarnar

Unnur Brá Konráðsdóttir, Sjálfstæðisflokki, benti á að Landsvirkjun gæti staðið við skuldbindingar sínar út árið 2010 án þess að taka erlend lán, nokkuð sem fá fyrirtæki gætu státað af.

Sigmundur Ernir Rúnarsson samfylkingarmaður sté næst í pontu og tók undir með Unni Brá að tala ætti Landsvirkjun upp, ekki niður.

Eiginfjárhlutfallið væri 31% og stefndi í 40% árið 2012 sem væri mjög gott miðað við til dæmis Orkuveitu Reykjavíkur þar sem hlutfallið væri komið niður í 15%, miðað við 50% fyrir nokkrum árum.

300 milljóna dala lán í boði

Í lok umræðna tók fjármálaráðherra aftur til máls og minnti þá á að í viðbúnaðarsamningi ríkis og Landsvirkjunar væri kveðið á um að fyrirtækið gæti sótt sér allt að 300 milljónir dollara að láni ef það þyrfti.

Ef matshæfi ríkisins styrktist ætti það að koma Landsvirkjun til góða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert