Læknar hafa áhyggjur af niðurskurði

Stjórn Læknafélags Íslands lýsir þungum áhyggjum af þeim niðurskurði sem boðaður er á fjárveitingum til heilbrigðismála í fjárlagafrumvarpi ársins 2010, að því er segir í tilkynningu frá félaginu. 

„Einhugur ríkir meðal þjóðarinnar um mikilvægi heilbrigðisþjónustunnar.
Stjórnin varar eindregið við þeim niðurskurði til heilbrigðismála sem kynntur hefur verið en hann er af þeirri stærðargráðu að skerðing á þjónustu við sjúklinga er óhjákvæmileg. Fyrirhugaður niðurskurður mun bitna á heilsufari fjölda einstaklinga og hafa neikvæð áhrif á framlag þeirra til þjóðarbúsins.

Stjórn Læknafélagsins skorar á Alþingi og ríkisstjórn Íslands að standa vörð um heilbrigðisþjónustuna. Slíkt hefur aldrei verið mikilvægara en nú þegar afleiðingar efnahagshrunsins leggjast með ofurþunga á landsmenn.

Stjórninni er ljóst að ríkisstjórn og Alþingi verða að draga verulega úr opinberum útgjöldum. Við slíkar aðstæður er afar mikilvægt að forgangsraða rétt.
Stjórnin telur að til að mæta því geti þurft að spara hlutfallslega enn meira í öðrum þáttum fjárlaga en heilbrigðismálum. Tryggja ber meiri fjármuni til grunnþjónustu og er þá átt við alla þá starfsemi sem snýr beint að læknismeðferð sjúklinga, bæði í heilsugæslu og sérfræðilæknaþjónustu sem og á sjúkrahúsum og stofnunum.

Stjórnin hvetur til þess að haldið verði áfram að skoða hagkvæmni meðferðarúrræða og að fé verði forgangsraðað til hagnýtustu meðferðarkosta. Þá er brýnt að fjárfesta áfram í verkefnum sem spara munu fé til framtíðar. Auk þess bendir stjórnin á mikilvægi þess að yfirvöld skilgreini til hvaða þátta heilbrigðisþjónustunnar sjúkratryggingar landsmanna ná og hverra ekki.
Pólitísku slagorðin „Stöndum vörð um velferðarkerfið“ eiga ekki að vera orðin tóm þegar kemur að gerð fjárlaga. Heilbrigði þjóðarinnar í framtíð er í húfi."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert