Niðurhal af netinu hefur áhrif

Mikill samdráttur hefur orðið í sölu hljóðrita, þ.e. geisladiska, hljómplatna og snælda, hér á landi á síðustu misserum og segir Hagstofan, að væntanlega megi rekja þann samdrátt að hluta til niðurhals tónlistar af Netinu, bæði löglegs og ólöglegs.

Hagstofan segir, að sala hljóðrita dróst saman um 31% milli áranna 2008 og 2007 í eintökum talið og byggir það á tölum úr upplagseftirliti Félags hljómplötuútgefenda. Inni í tölunum er ekki meðtalin sala hljóðrita með niðurhali yfir netið.

Á síðasta ári seldust ríflega 446.000 eintök af innlendum og erlendum hljóðritum á heildsölustigi sem er 200.000 eintökum færra en árið á undan. Heildarverðmæti seldra hljóðrita á heildsölustigi á síðasta ári nam um 592 milljónum króna, sem jafngildir um 950 milljónum króna á smásölustigi, að virðisaukaskatti meðtöldum.

Frá árinu 2005 hefur sala hljóðrita dregist saman um 46% eða um 377.000 eintök. Hæstum hæðum náði salan árið 1999 en þá seldust á heildsölustigi 868.000 eintök, eða 422.000 fleiri eintök en á síðasta ári. Á síðasta ári nam sala hljóðrita um 1,4 eintökum á íbúa samanborðið við ríflega þrjú eintök er best lét árið 1999. 

Markaðshlutdeild innlendra hljóðrita hefur aukist nær jafnt og frá aldamótum. Fram að þeim tíma nam hlutur innlendra útgáfu að jafnaði um 40%  en á síðasta ári var hlutdeild innlendrar útgáfu 71% talið í seldum eintökum. Söluverðmæti innlendrar útgáfu var 72% af heildarsölunni á síðasta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert