Bændasamtökin fóru ekki yfir svörin

Bændasamtök Íslands fóru ekki yfir svör Íslands við spurningum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Hið rétta er að samtökin komu að svörum ákveðinna hluta. Formlegt erindi um fulltrúa í samningahópi landbúnaðarhluta viðræðna við ESB hefur enn ekki borist samtökunum þrátt fyrir beiðni Bændasamtakanna um slíkt.

Bændasamtök Íslands hafa sent frá sér yfirlýsingu vegna tilkynningar utanríkisráðuneytisins í gær þar sem kemur fram að samtökin hafi, ásamt öðrum samtökum, farið yfir svör Íslands til Evrópusambandsins vegna aðildarumsóknar Íslands.

Í yfirlýsingunni segir að það sé ofsagt að Bændasamtök Íslands hafi farið yfir svörin við landbúnaðarkafla spurningalistans. Þau hafi hins vegar veitt sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu aðstoð við hluta svaranna. Svörin í heild sinni hafi ekki komið til formlegrar yfirferðar hjá Bændasamtökunum, enda hafi hvorki verið tími né aðstæður til vandlegrar yfirferðar.

Þá kemur fram í yfirlýsingunni að ekki sé enn búið að skipa í samningahóp um landbúnaðarhluta viðræðna ESB en samkvæmt ályktun Alþingis hefði hann átt að fara yfir svörin.

Ekkert fomrlegt erindi borist þrátt fyrir beiðni

Eiríkur Blöndal, framkvæmdastjóri Bændasamtakanna, sagði það hafa komið mjög á óvart að sagt væri í yfirlýsingu utanríkisráðuneytisins í gær að samtökin hefðu farið yfir svörin með öðrum.

„Við komum að hluta svaranna en það er allt og sumt. Það voru auðvitað tímatakmörk hvað hægt er að gera á svo skömmum tíma en við hefðum vissulega kosið að svörin hefðu hlotið meiri umfjöllun. Við hefðum viljað fjalla um þau á vettvangi stjórnar og félagskerfis.“

Hvað varðar skipan  starfshóps um landbúnaðarhluta viðræðnanna sagði Eiríkur að samtökin hefðu fengið fyrirspurnir frá hinu opinbera en ennþá hefði ekkert formlegt erindi borist. „Þetta er allt saman mjög óljóst og formaður samtakanna sendi því erindi til baka þar sem spurt var hvert nákvæmlega væri hlutverk hópsins og valdsvið og hver ætti að leiða hann. Það hafa hins vegar ekki borist nein svör við því og þrátt fyrir að þar hefði einnig verið beðið um að formleg beiðni myndi berast okkur um fulltrúa í hópnum hefur slíkt engin beiðni af því tagi borist.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert