Elín Björg kosin formaður BSRB

Elín Björg Jónsdóttir var í dag kjörin formaður Bandalags starfsmanna ríkis og bæja á þingi bandalagsins.

Elín Björg, sem er formaður Félags opinberra starfsmanna á Suðurlandi, fékk 52,38% í fyrstu umferð formannskjörs, Árni Stefán Jónsson formaður SFR, fékk 38,59% og Arna Jakobína Björnsdóttir formaður Kjalar, fékk 15,09%. Alls kusu 252 á landsfundinum. Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, dró framboð sitt í formannskjörinu til baka fyrr í dag. 

Elín Björg lagði eftir kjörið áherslu á að hún myndi standa vörð um réttindi og kjör þeirra 20 þúsund félagsmanna sem eru innan BSRB. Nú væri mikilvægt að allir snéru bökum saman því framundan væru erfiðir tímar fyrir alla.

Hún sagðist vera afar stolt af því að taka við formennsku af Ögmundi Jónassyni, sem hún hefði starfað með í tvo áratugi.

Ögmundur óskaði Elíu Björgu til hamingju með kjörið og ávarpaði félaga sína í síðasta sinn. „Góðir félagar, ég hef lokið máli mínu fyrir BSRB," sagði hann og þakkaði fyrir samstarfið.

Elín Björg hefur verið annar varaformaður BSRB frá árinu 2006 en gegndi áður starfi ritara stjórnar frá 1989. Þá hefur hún verið formaður Félags opinberra starfsmanna á Suðurlandi, FOSS, frá árinu 1993 og formaður Samflotsins frá árinu 1989 en það er samstarfsvettvangur tólf bæjarstarfsmannafélaga við kjarasamningagerð.

Elín Björg Jónsdóttir.
Elín Björg Jónsdóttir.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert