Gagnrýna Árna Pál fyrir ASÍ-ræðu

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Ómar

Þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks gagnrýndu Árna Pál Árnason, félagsmálaráðherra, harðlega á Alþingi í dag fyrir ummæli sem hann lét falla á ársfundi Alþýðusambands Íslands í gær.

Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, tók málið upp í umræðum um störf þingsins og vísaði m.a. til ummæla Árna Páls um að ef sjávarútvegur og stóriðja geti ekki þolað hóflega innköllun veiðiheimilda og hóflega auðlindaskatta sé spurning hvort Íslendingar séu yfir höfuð að veðja á réttan hest og verðum að leita annarra kosta um framtíðaratvinnuuppbyggingu.

Illugi sagði, að ýmis önnur ummæli í ræðunni væru varla eftir hafandi. Áhugavert væri, að velta því fyrir sér hvort um sé að ræða stefnu Samfylkingarinnar í atvinnumálum, en til þessa hefði verið talið að  stefnumörkun ríkisstjórnarinnar um stóriðjuskatta væri ættuð frá Vinstri grænum. Ummæli ráðherrans lýstu hins vegar sama viðhorfi til atvinnulífsins, að berja niður stóriðjuna og sjávarútveginn.

Magnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingarinnar, sagðist vera mjög sáttur við þá nálgun, sem Árni Páll var með í sinni ræðu. Hann sagði, að pólitísk umræða snúist um stöðu ríkisfjármála, hvar væru breiðustu bökin og hvar væri hægt að sækja fé í ríkissjóð.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði að Árni Páll væri oddviti hennar kjördæmis, Suðvesturkjördæmis, og hann væri með ummælum sínum að gera lítið úr atvinnuuppbyggingu þar. Spurði Þorgerður Katrín hvort Árni Páll muni styðja uppbyggingu álversins í Straumsvík.

Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokks, sagðist hafa hrokkið verulega við þegar hann heyrði af ræðu Árna Páls. Vísaði hann sérstaklega til þeirra ummæla, að gengisfellingin hafi fært peninga frá íslensku launafólki til sægreifa og stóriðju og sagði að ráðherrann hlyti að þurfa að skýra þetta.

Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, sagði einnig að framganga ráðherrans að undanförnu hlyti að vekja athygli. Hún vitnaði til ummæla ráðherrans í ræðunni í gær um að Íslendingar  verði að setja viðskiptalífinu skýr mörk og verða ekki ginningarfífl stóriðju og útgerðarauðvalds með sama hætti og þeir eltum sérhagsmuni bankadrengjanna og útrásargosanna á undanförnum árum.

Ræða Árna Páls á ársfundi ASÍ

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert