Greiðslujöfnunarfrumvarp samþykkt

Þingmenn samþykktu frumvarp um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og …
Þingmenn samþykktu frumvarp um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins. mbl.is/Eggert

Alþingi samþykkti í dag með 32 atkvæðum gegn 1 frumvarp ríkisstjórnarinnar um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins. Frumvarpið tekur þegar gildi þannig að aðgerðirnar komi til framkvæmda um næstu mánaðamót.

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, gagnrýndi frumvarpið og sagði það unnið í tímahraki. Verið væri að demba saman margvíslegum skuldum, sem ekki ættu heima saman í sama frumvarpinu. Gerði hann m.a. athugasemd við greiðslujöfnunarvísitölu, sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu.

Árni Páll Árnason, félagsmálaráðherra, sagði það mikið ánægjuefni að fulltrúar allra flokka hefðu séð sér fært að vinna saman að málinu og fylgja því til enda. Við ætlum að vinna saman, leita sameiginlegra lausna og fylgja þeim eftir," sagði hann.

Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Framsóknarflokks, sagðist styðja málið í trausti þess að um væri að ræða fyrsta skrefið í aðgerðum til bjargar skuldsettum heimilum og að næst yrðu stigin skref til að taka á höfuðstól lána og koma á heilbrigðum lánamarkaði. Í sama streng tók Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sem sagði að þetta frumvarp tæki á greiðsluvandanum en eftir væri að taka á skuldavanda heimilanna.

Davíð Stefánsson, þingmaður VG, sagði að þetta væru gríðarlega flóknar aðgerðir sem farið hefði verið í á mjög miklum hraða við erfiðar ástæður. Hann sagðist hafa lagt áherslu á það í félagsmálanefnd að stofnað verði embætti umboðsmanns skuldara og væri það komið á verkefnaskrá nefndar sem á að fylgjast með framkvæmd laganna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert