Leggja fram drög að framhaldi

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA og Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ
Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA og Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ mbl.is/Árni Sæberg

Framkvæmdastjórn Samtaka atvinnulfísins og samninganefnd Alþýðusambands Íslands eru nú á leið á fund ríkisstjórnarinnar með drög að því hvernig þeir sjái fyrir sér að hægt verði að standa við stöðugleikasáttmálann.

„Við hyggjumst þarna leggja fram uppkast að því hvernig við sjáum að þetta geti þróast,“segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. „Það þarf að láta á það reyna hvort ríkisstjórnin er tilbúin til þess að vinna með okkur á þessum grundvelli.“

Lokið var við drögin á sameiginlegum fundi framkvæmdastjórnarinnar og samninganefndar ASÍ sem hittist klukkan tvö í dag. Að loknum fundinum við ríkisstjórnina munu þessir aðilar svo funda svo og ræða niðurstöður fyrri fundar.

Kjarasamningar og svonefndur stöðugleikasáttmáli hanga nú á bláþræði vegna bágs ástands í efnahagsmálum. Kjarasamningar renna út á þriðjudaginn ef ekki næst samstaða um að endurnýja þá. Að óbreyttu verður það ekki gert.

Talsvert mikið stendur út af milli aðilanna. Sagði Vilhjálmur fyrr í dag að stærstu málin væru fjárfestingar í atvinnulífinu á næsta ári, ekki síst í stóriðjuframkvæmdum og við Suðvesturlínu Landsnets. Þar hafa orku- og kolefnisskattar og nýleg ákvörðun umhverfisráðherra um sameiginlegt umhverfismat haft mikil áhrif.

Þá ber einnig mikið á milli hvað varðar skattamál og stýrivexti. Þá hafa yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um fyrningarleið í sjávarútvegi vakið mikla ólgu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert