Eftirlitsstofnanir brugðust

Tony Shearer, fyrrverandi forstjóri Singer & Friedlander.
Tony Shearer, fyrrverandi forstjóri Singer & Friedlander. Reuters

Tony Shearer, sem stýrði breska bankanum Singer & Friedlander áður en Kaupþing keypti hann árið 2005, sagði í samtali við bresku sjónvarpsstöðina Sky News í dag að eftirlitsstofnanir hafi gersamlega brugðist í aðdraganda bankahrunsins á Íslandi.

Sherarer sagði í þættinum  Jeff Randall Live, að eftirlitsstofnanir hafi ekki brugðist við vísbendingum um að íslenska fjármálakerfið byggðist á áður óþekktri áhættusækni.  

Þá sagði hann furðulegt, að breska fjármálaeftirlitið hefði ekki rannsakað starfsaðferðir æðstu stjórnenda íslensku bankanna, einkum í ljósi óvenjulegrar lánabókar Kaupþings, sem raunar birtist á netinu síðsumars.  

„Þetta var óvenjulegasta lánabók sem hugsast getur. Það kom fram í ársskýrslum bankans að hluthafar hefðu fengið há lán hjá bankanum. Það er ótrúlegt að engin eftirlitsstofnun spurði: Hvaða lán eru þetta?Hverjar eru tryggingarnar? Raunin var sú, að tryggingarnar voru afar litlar," sagði Shearer.

Hann hætti störfum hjá Singer & Friedlander nokkrum mánuðum eftir að Kaupþing keypti bankann og segist hafa gert það vegna þess að hann hafði efasemdir um hæfni nýju eigendanna, sem hafi stýrt útlánum með óhefðbundnum hætti. 

Shearer sagði að nú, ári eftir að íslensku bankarnir féllu hafi menn ekki enn dregið neinn lærdóm af því.

„Það hefur að mínu mati enginn gert raunverulega tilraun til að skilja hvað fór úrskeiðis og koma síðan fram með tillögur um hvernig bæta eigi úr því," er haft eftir honum á vef Sky News.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert