Grunur um svín með svínaflensu

Grunur kviknaði í dag um að svínaflensu væri búin að stinga sér niður í svínum hér á landi. Verið er að rannsaka hjá Rannsóknarstofnun landbúnaðarina á Keldum hvort um smit sé að ræða. Engin hætta er á að smit berist úr svínakjöti í mannfólk.

,,Við höfum haft af þessu nokkrar áhyggjur og því hvöttum við til þess að starfsfólk svínabúa væri sprautað gegn svínaflensunni en því miður hefur það ekki gengið upp alls staðar," sagði Haraldur Briem, sóttvarnarlæknir.

Ef um smit er að ræða verður reynt að halda því innan viðkomandi bús en svín spjara sig yfirleitt nokkuð vel af flensunni segir Haraldur, og veikjast ekki illa. Dæmi eru um að svín hafi veikst af flensunni erlendis og eru þau mun líklegri til þess en annar búfénaður þótt einnig séu til nokkur dæmi um að kalkúnar hafi fengið veiruna.

,,Við leggjum hins vegar áherslu á að það er engin hætta á því að fólk veikist af svínaflensunni með því að borða svínakjöt. Það getur hins vegar smitast af henni ef það er í nágrenni við veikt svín, ef þau hnerra eða hósta. Svínin eru um margt lík mannfólkinu," sagði Haraldur.

Það kemur í ljós á morgun hvort svínin séu sýkt af svínaflensu en telur Haraldur fremur líklegt að um smit sé að ræða. Til að koma í veg fyrir útbreiðslu smits til annarra búa hefur bann verið sett á flutning dýra frá búinu og allar sóttvarnir verið hertar.

Einkenni inflúensu í svínum eru m.a. hár hiti og lystarleysi, kvef og hósti. Svínin ná sér oftast eftir þriggja til sex daga veikindi. Sú almenna regla gildir að óheimilt er að slátra veikum dýrum, þetta á jafnt við um svínaflensu sem aðra sjúkdóma. 





 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert