Íslandslán rædd á Norðurlandaráðsþingi

Jens Stoltenberg í Stokkhólmi í dag.
Jens Stoltenberg í Stokkhólmi í dag. mynd/norden.org

Mismunandi sjónarmið, sem verið hafa innan norsku stjórnarflokkanna um lánveitingar til Íslands, komu upp á yfirborðið á þingi Norðurlandaráðs sem hófst í Stokkhólmi í dag. Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, sagði þar að ekki kæmi til greina að lána Íslendingum á öðrum forsendum en í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Norska fréttastofan ANB segir, að Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, hafi spurt Stoltenberg að því á þingi Norðurlandaráðs í dag hvor norska ríkisstjórnin gæti í lánveitingu til Íslands teygt sig út fyrir þann ramma, sem  Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefði sett. 

Stoltenberg svaraði, að það væri ekki raunhæft að ætla að Noregur veiti slík lán á öðrum forsendum en í tengslum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Það sé í raun hagstætt fyrir Ísland því það myndi skapa óvissu ef væntingar sköpuðust um að hægt væri að ganga að annarskonar lánum vísum.

ANB hefur hins vegar eftir Per Olaf Lundteigen, þingmanni norska Miðflokksins, að staðan á Íslandi sé svo alvarleg að hugsa verði um þá stöðu út frá öðrum forsendum en hefðbundnum efnahagslegum gildum.

Hann segir, að Stoltenberg haldi sig við þá skoðun, að Noregur geti ekki komið að þessu máli með öðrum hætti en sem hluti af lausn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hann segist ætla að halda málinu til streitu innan norsku stjórnarinnar. 

Fram hefur komið, að Lundteigen vill að Norðmenn láni Íslandi allt að 10 milljarða norskra króna svo Íslendingar þurfi ekki að vera upp á Alþjóðagjaldeyrissjóðinn komnir.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert