Óttast skert umferðaröryggi

Vegir geta litið út fyrir að vera blautir en verið …
Vegir geta litið út fyrir að vera blautir en verið flughálir. Rax / Ragnar Axelsson

Tvö umferðaróhöpp í Borgarfirði í dag má rekja til fljúgandi hálku. Báðir bílarnir sem fóru út af voru vel búnir til vetraraksturs, annar á nýjum nagladekkjum og hinn á nýjum heilsársdekkjum. Varðstjóri í lögreglunni í Borgarnesi óttast að niðurskurður á fé til vegaþjónustu bitni á umferðaröryggi.

Varðstjórinn sagði hvorugt slysið í dag mega rekja til óvarkárni í akstri. Bílarnir hafi augljóslega ekki verið á mikilli ferð og endað rétt utan við veg. Hins vegar voru aðstæður þannig við Langá í morgun og Svignaskarð í hádeginu að ísing myndaðist á vegunum.

Vegirnir litu út fyrir að vera votir en voru huldir flughálli íshúð. Ekki var stætt á ísingunni, að sögn varðstjórans. Úrkoma var í gær og blautt um. Hitinn sveiflaðist í kringum frostmark. Rétt fyrir sólarupprás hélaði allt og fraus. Ómögulegt er að sjá ísinguna.

Varðstjórinn sagði að vegna þess að minna fé sé til vegaþjónustu hafi dregið úr því að vegir séu saltaðir. Hann vildi hvetja ökumenn til að prófa akstursaðstæður. Það má t.d. gera með því að stíga varlega á bremsuna og gá hvernig bíllinn bremsar. Gæta þarf að því að slíkar tilraunir skapi ekki hættu fyrir aðra bíla í umferðinni. Þá á að miða ökuhraða við aðstæður og ágætt að flýta sér hægt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert