Byggingarstjóri fundinn sekur um vanrækslu

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur fallist á kröfur eigenda þriggja raðhúsa við Sóleyjarrima í Reykjavík um að byggingarstjóri húsanna hafi gerst sekur um vanrækslu og sé bótaskyldur. Var byggingarstjórinn dæmdur til að greiða húseigendunum bætur, frá 670 þúsundum til 1,77 milljóna fyrir hvert hús. 

Fram kemur í dómnum, að húsin eru byggð úr forsteyptum einingum. Húseigendurnir keyptu húsin af  Byggingarfélaginu Sögu á fyrri hluta ársins 2005 og átti samkvæmt kaupsamningum að afhenda þau í ágúst fullbúin að utan með grófjafnaðri lóð en rúmlega fokheld að innan. Verklok og afhending húsanna dróst hins vegar verulega og stóðu kaupendurnir í deilum við byggingarfélagið sem lauk loks með dómssátt nú í mars.

Byggingarmeistarinn var hins vegar ekki aðili að sáttinni og héldu húseigendurnir áfram málarekstri gegn honum. Dómkvaddur matsmaður komst að þeirri niðurstöðu að frágangur og vinnubrögð við byggingu húsanna væru ófullnægjandi og töldu húseigendurnir að við framkvæmdina hefði ekki verið gætt fullnægjandi faglegra vinnubragða og skort hafi á eftirlit. Það yrði að virða byggingarstjóra til vanrækslu að hafa látið slík vinnubrögð viðgangast.

Héraðsdómur féllst á kröfur húseigendanna að fullu og dæmdi byggingarstjórann til að greiða þeim bætur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert