Ísland tekur einhliða ákvörðun um makrílkvóta

Sjávarútvegsráðuneytið segir, að íslensk stjórnvöld séu knúin til að taka enn á ný einhliða ákvörðun um aflahámark fyrir næsta ár. Evrópusambandið, Noregur og Færeyjar hafi hafnað ósk Íslands um að taka þátt í heildarstjórnun makrílveiðanna á næsta ári.

Í tilkynningu frá sjávarútvegsráðuneytinu segir, að þrátt fyrir stóraukna makrílgengd í íslensku lögsöguna og að íslensk skip hafi veitt 112 þúsund tonn af makríl í fyrra og svipað magn í ár, hafi það engu breytt um afstöðu Evrópusambandsins, Noregs og Færeyja, sem þverskallist við að viðurkenna Ísland sem strandríki.

Nú standi yfir vikulangur fundur um stjórn makrílveiða fyrir árið 2010 í Cork á Írlandi og hafi Íslandi aðeins verið boðið að sitja lokadag fundarins. Með þessu sé augljóst að aðilarnir þrír hafni þeirri ósk Íslands að taka þátt í heildarstjórnun makrílveiðanna á næsta ári, sem landið eigi fullan rétt á samkvæmt hafréttarsamningnum og úthafsveiðisamningnum.

„Með þessum aðgerðum eru íslensk stjórnvöld knúin til að taka enn á ný einhliða ákvörðun um aflahámark fyrir næsta ár. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, tiltekur að þá verði augljóslega litið til veiðanna undanfarin ár og jafnframt til vaxandi útbreiðslu makríls innan íslensku efnahagslögsögunnar," segir í tilkynningu ráðuneytisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert