Yfirlýsingin kom ASÍ á óvart

Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ. Rax / Ragnar Axelsson

Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ), segir að yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um framgang stöðugleikasáttmálans hafi komið sér á óvart. Hann segir að ekki sé búið að útkljá deilumál sem aðilar að stöðugleikasáttmálanum deildu um.

Gylfi segir að í gærkvöldi hafi verið ágreiningur um einstök atriði sem nú birtist óbreytt í yfirlýsingunni. Óánægja aðila vinnumarkaðarins, ASÍ og SA (Samtaka atvinnulífsins), hafi einkum snúið að áformum ríkisstjórnarinnar um orku- og auðlindaskatta. „Okkur finnst vanta skýrari vilja af hálfu ríkisstjórnarinnar til að koma að viðræðum um endurskoðun þeirra áforma,“ sagði Gylfi.

Gylfi sagði fulltrúa vinnumarkaðarins hafa viljað fá skýrari yfirlýsingu frá ríkisstjórninni um að fallið verði frá orku- og auðlindasköttum en atvinnutryggingagjald frekar hækkað. 

Hann sagði að þeir vilji að hækkun atvinnutryggingagjalds verði tengd kostnaði við  rekstur atvinnutryggingasjóðs. Mikilvægt sé að tengja það tvennt því það sé nátengt kröfu aðila vinnumarkaðarins um endurskoðun á framkvæmd atvinnuleysistrygginga.

Gylfi sagði einnig mikilvægt að tengja álögur á atvinnulífið kostnaði vegna atvinnuleysis. Tryggingagjaldið sé í beinni samkeppni við svigrúm til launahækkana. ASÍ vilji því sjá tryggingagjaldið lækka þegar atvinnuleysi minnkar.

„Ég hélt að vegna tímanauðar, fjarveru ráðherra og kjördæmisdaga  hefðu menn sammælst um að kæla þetta og setjast að viðræðum eftir helgina. Ég verð að viðurkenna að það kom mér í opna skjöldu að ríkisstjórnin sendi þetta frá sér í dag og loki málinu. Það er ágreiningur af hálfu ASÍ og SA um þetta. Við teljum þetta ekki grunn til að byggja samstarf á,“ sagði Gylfi.

Gylfi sagði að aðilar vinnumarkaðarins hafi verið búnir að sættast á að ekki yrði alfarið fallið frá því að leggja á orku- og auðlindaskatta. Með yfirlýsingunni finnist þeim að ríkisstjórnin sé búin að takmarka efni væntanlegra viðræðna áður en þær hefjist.

Gylfi sagði ASÍ hafa varað við því að bryddað sé upp á skattanýjungum sem þessum við þær aðstæður sem nú ríkja í efnahagslífinu. Þær muni hafa neikvæð áhrif og hindra fjárfestingar, einkum í nýsköpun.

„Fjármálaráðherra orðaði þetta ágætlega í sumar, þegar við vorum að hefja þetta samstarf. Hann sagði að nú væri ekki tími til mikilla hugmyndafræðilegra landvinninga,“ sagði Gylfi. „Nú þurfa allir að snúa bökum saman. Það þýðir ekki að brydda upp á nýjum atriðum sem eru órædd og óútfærð en hafa skelfilegar afleiðingar.“

Gylfi sagði það eitt geta fært okkur úr núverandi stöðu að fjárfestingar verði efldar, sérstaklega í nýsköpun. Hann benti á að áform um orku- og auðlindaskatta hafi jafn mikil áhrif á gagnaver, sólarselluframleiðslu, álþynnugerð og aðrar nýjungar sem eru að koma hingað. 

Gylfi sagði að textinn um nýju skattana og það sem honum tengist hafi komið fram í gærkvöldi og valdið því að næstum slitnaði á milli aðila viðræðnanna. Hann kvaðst hafa átt von á því að ríkisstjórnin myndi hinkra með að birta textann þar til hún hefði gefið sér tíma til að ræða betur við aðila vinnumarkaðarins.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert