Nota forðann í afborganir lána

Gjaldeyrisvaraforðinn, lánið frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og nágrannalöndunum, verður ekki eingöngu notaður til að styðja við gengi krónunnar heldur einnig til að tryggja greiðslugetu ríkissjóðs á næstu árum.

Þetta kom fram á blaðamannafundi í gær með Gylfa Magnússyni, efnahags- og viðskiptaráðherra, í tilefni af fyrstu endurskoðun áætlunar Íslands og AGS, sem var samþykkt í stjórn sjóðsins í gær. Afborganir ríkisins á lánum á næstu árum verða þungar. Upphaflega var talað um að ekki þyrfti að nota gjaldeyrisvaraforðann heldur væri nóg að eiga hann á reikningi til að auka tiltrú á íslenskan efnahag og fjármálakerfi.

Þörf fyrir forða miðuð við komandi gjalddaga

Spurður um það í hvað lánin yrðu notuð sagði Gylfi að búið væri að áætla fjárþörf ríkisins til allmargra ára. Hún fælist meðal annars í því að fjármagna hallann á ríkissjóði á næstu árum. „Ríkissjóður hefur þegar tekið lán sem þarf að endurgreiða, sérstaklega á árinu 2011. Síðan eru ýmsir aðrir liðir sem ríkið þarf að geta staðið skil á. Forðinn eða þörfin fyrir forða var reiknuð út frá þessum stærðum,“ sagði Gylfi.

Á fundinum í gær talaði Gylfi einnig um hóflega notkun varaforðans til að styrkja gengi krónunnar samfara afnámi gjaldeyrishafta. Fyrstu skrefin í því verða stigin á næstu dögum, á morgun eða á mánudag líklega. Gylfi tók fram að gengisstöðugleiki væri enn meginmarkmið peningastefnunnar, innan fljótandi gengisfyrirkomulags. „Til framtíðar er þess vænst að hin víðtæka stefnuáætlun sem við höfum gert styrki gengi krónunnar og gjaldeyrisvaraforðann. Með þessu móti yrði til aukið svigrúm til að lækka stýrivexti og afnema gjaldeyrishöft í áföngum,“ sagði Gylfi.

„Ég er ánægður og feginn, enda búinn að bíða lengi eftir þessu,“ segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra um fyrstu endurskoðun á efnahagsáætlun Íslands með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Með endurskoðuninni fær Seðlabankinn aðgang að andvirði tæplega 100 milljarða króna til að styrkja gjaldeyrisforða sinn. Annars vegar 167,5 milljónum Bandaríkjadala frá AGS og hins vegar 625 milljónum dala frá nágrannalöndunum.

„Þetta er tvímælalaust jákvætt innlegg í það samhengi,“ segir Steingrímur um hugsanlega stýrivaxtalækkun í kjölfarið. Vegna þeirrar seinkunar sem varð á þessari endurskoðun framlengist áætlunin með AGS til maí 2011.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert