Fjórtán sagt upp hjá Reykjalundi

Frá Reykjalundi
Frá Reykjalundi Rax / Ragnar Axelsson

Fjórtán manns fengu uppsagnarbréf í hendurnar hjá Reykjalundi endurhæfingu í dag. Að sögn Birgis Gunnarssonar forstjóra Reykjalundar eru uppsagnirnar tilkomnar vegna þess niðurskurðar sem Reykjalundi er gert að ganga í gegnum. Um er að ræða 10 stöðugildi, fimm stöðugildi hjúkrunarfræðinga og fimm stöðugildi sjúkraliða og ófaglærðra. 

„Það er bara hörmulegt að þurfa að vera að standa í  þessu en þetta er bara eitthvað sem er óhjákvæmilegt og við reynum að velja illskásta kostinn og það er enginn kostur góður í þessu.“ segir Birgir.

„Okkur er gert að spara á næsta ári um 6,7% frá fjárlögum þessa árs og það er rétt um 90 milljónir. Við unnum þetta þannig að það var skipaður vinnuhópur til að fara yfir skipulag og mönnun deilda. Það ásamt ýmsum aðgerðum sem við vorum að fara í þýðir að við vorum að segja upp fjórtán manns þessi mánaðamót,“ segir Birgir. Einnig voru fastar yfirvinnugreiðslur lækkaðar, sagt upp akstursgreiðslum og fleira. 

Breytingar á skipulagi hjúkrunar taka gildi 1. febrúar og taka þá mið af uppsagnarfresti þeirra sem sagt var upp.

Hvað áhrif á þjónustu þeirra sem sækja Reykjalund varðar segir Birgir að í gildi sé samningur við heilbrigðisyfirvöld um þá þjónustu sem þeim er gert að veita. Þau sjái fram á að geta áfram sinnt þeirri starfssemi sem þau eru samningsbundin til að veita en óneitanlega verði gæði þjónustunnar ekki þau sömu. Núna verði til dæmis meira skilgreint hverjir þurfi að vera inniliggjandi og eftir sem bjóða gistingu fyrir fólk utan af landi og fólk sem af einhvers konar ástæðum getur ekki sótt dagdeildina heiman frá sér en það verði engin þjónusta í kringum það. Samhliða þessu verði dagdeildarþjónustan og göngudeildin efld.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert