Kári fær verðlaun fyrir rannsóknir í læknavísindum

Kári Stefánsson við verðlaunaafhendinguna.
Kári Stefánsson við verðlaunaafhendinguna.

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar og prófessor við Háskóla Íslands tók í dag við Anders Jahre verðlaununum sem veitt eru árlega í viðurkenningarskyni fyrir framúrskarandi árangur við rannsóknir í læknavísindum á Norðurlöndum.

Kári er fyrstur Íslendinga til að hlotnast þessi heiður og hlýtur hann verðlaunin fyrir forystuhlutverk sitt í alþjóðlegum rannsóknum á erfðafræðilegum orsökum sjúkdóma í mönnum.

Tilkynnt var að Kári hlyti verðlaunin í ágúst síðastliðnum en afhendingarathöfnin fór fram nú síðdegis í viðhafnarsal Oslóarháskóla að viðstöddum Noregskonungi.

Í tilkynningu segir að Jahre-verðlaunin, sem kennd eru við norska viðskiptajöfurinn Anders Jahre sem  hafa verið veitt frá árinu 1960 séu ein hin virtustu sem veitt eru fyrir framlög til læknavísinda í Evrópu og þau stærstu á Norðurlöndum en verðlaunaféð nemur einni milljón norskra króna.

Auk aðalverðlaunanna eru einnig veitt sérstök verðlaun til ungra vísindamanna og deila Svíinn Anders Tengholm og Finninn Jukka Westermarck þeim verðlaunum þetta árið, báðir fyrir rannsóknir sínar á sviði frumulíffræði.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert