Rjúpnaskyttuleit á fyrsta degi

Lögregla hefur þurft að hafa afskipti af rjúpnaskyttum í dag. …
Lögregla hefur þurft að hafa afskipti af rjúpnaskyttum í dag. Þessi mynd var tekin í fyrra.

Rjúpnaveiðitímabilið var varla hafið þegar kallað var út í fyrstu leitina að rjúpnaskyttu. Að sögn lögreglunnar á Selfossi voru fjórir menn á veiðum á Skjaldbreið í dag en einn skilaði sér ekki að bíl á tilsettum tíma og höfðu hinir þá samband við lögreglu.

Björgunarsveit var kölluð út um klukkan 15 en um klukkustund síðar kom maðurinn í leitirnar. Að sögn lögreglu var þoka á fjallinu og nokkuð blautt.

Selfosslögreglan hafði klukkan 10:30 í morgun afskipti af tveimur mönnum, sem voru að skjóta á rjúpur í sumarbústaðalandi í Biskupstungum.  Vopn mannanna voru gerð upptæk þar sem þau voru ekki í samræmi við veiðireglur. Að auki hafði annar mannanna ekki veiðikort. Ekki er vitað til að þeir hafi veitt neitt.

Þá hafði lögreglan afskipti af rjúpnaskyttu á Bláfellshálsi eftir hádegið. Sá hafði ekið á bíl utan vegar á veiðisvæðið og byssa hans var að auki ekki í samræmi við lög.

Rjúpnaveiðitímabilið hófst í dag og stendur til sunnudagsins 6. desember. Veiðar eru heimilar föstudaga, laugardaga og sunnudaga á tímabilinu. Sölubann gildir áfram á rjúpu og öllum rjúpnaafurðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert