„Þurfum fleiri tæki í verkfærakassann“

mbl.is/Árni Torfason

„Við þurfum á öllum þeim meðölum að halda sem hægt er að fá til þess að berjast gegn mansali. En við þurfum líka að fá fleiri tæki í verkfærakassann okkar,“ sagði Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á Suðurnesjum, á opnum fundi um aðgerðir gegn mansali sem fram fór á Hótel Borg fyrr í dag. 

Meðal þeirra tækja sem hún nefndi voru heimild lögreglunnar til fyrirbyggjandi rannsókna líkt og þekkist í nágrannalöndum okkar. Benti hún á að eins og staðan væri í dag gæti lögreglan ekki framkvæmt húsleit né skoðað tölvur eða bankareikninga nema fengin væri dómsúrskurður um slíkt. Þannig ætti lögreglan erfitt með að rannsaka mál þar sem grunur léki á um að fremja ætti glæp, en eins og staðan væri í dag gæti lögreglan fyrst fyrir alvöru rannsakað glæpi sem þegar væri búið að fremja. Tók hún fram að auðvitað þyrftu að vera mjög skýrir rammar utan um fyrirbyggjandi rannsóknarheimildir. 

Alda Hrönn Jóhannsdóttir, aðstoðarlögreglustjóri á Suðurnesjum, útlistaði hvernig óskalisti lögreglunnar liti út. Nefndi hún líkt og Sigríður fyrirbyggjandi rannsóknaraðgerðir, auk þess sem hún sagði mikilvægt að aðgerðaráætlun íslenskra stjórnvalda gegn mansali yrði innleidd að fullu, Palermó-sáttmálinn fullgiltur hérlendis og vitnavernd efld, enda væri einn helsti vandi lögreglunnar sá að vinna traust þeirra einstaklinga sem grunur léki á um að væru fórnarlömb mansals. 

Báðar lögðu þær mikla áherslu á að ekki væri hægt að finna fórnarlömb mansals nema þeirra væri sérstaklega leitað. Sigríður lagði áherslu á eitt af því sem flestöll fórnarlömb mansals ættu sameiginlegt væri að þau ferðuðust á fölsuðum skilríkjum. „Það þýðir að ef við eflum eftirlitið með skilríkjum þá eru meiri líkur til þess að við finnum fórnarlömb mansals,“ sagði Sigríður. 

Fram kom einnig í máli Sigríðar að upplýsing og vitundarvakning væri lykilatriði í því að stemma stigu við mansali. Hún vildi ekki tjá sig um nýlegt mansalsmál sem upp kom í umdæmi hennar af hættu við að það myndi spilla rannsókninni. „Ég vil hins vegar hrósa frjálsum félagasamtökum fyrir sérstaklega gott samstarf í því máli,“ sagði Sigríður. 

Hún var ekki ein um það að leggja áherslu á góða samvinnu ríkisstofnana á borð við lögregluna og frjálsra félagasamtaka á borð við Stígamót, því Ruth Freedom Pojman, varamansalsfulltrúi Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE), sagði þá samvinnu lykilatriði í því að ná góðum árangri í baráttunni gegn mansali. 

„Það þarf að tryggja að frjáls félagasamtök fái nauðsynlegar fjárveitingar þannig að þau geti starfað,“ sagði Pojman m.a. og minnti á að glæpamennirnir sem skipleggi mansal séu alltaf einu skrefi á undan stjórnvöldum þar sem þeir glími ekki við kröfu um sífelldan niðurskurð. 

Nánar verður fjallað um fundinn í Morgunblaðinu á morgun. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert