1998: Eigendur njóta trausts

Tveir fulltrúar Kaupþings hafa sest í stjórn 1998 ehf. sem …
Tveir fulltrúar Kaupþings hafa sest í stjórn 1998 ehf. sem fer með eignarhald á Högum. Golli / Kjartan Þorbjörnsson


Áframhaldandi þátttaka eigenda og stjórnenda í þeim fyrirtækjum sem Nýi Kaupþing þarf að afskrifa skuldir hjá eða umbreyta skuldum í hlutafé er háð því að þeir njóti sérstaks trausts og þeir þyki mikilvægir fyrir framtíð fyrirtækisins. Þetta kemur fram í verklagsreglum bankans um lausnir á skuldavanda fyrirtækja. Síðasta útgáfan af þeim reglum er frá því í september og er aðgengileg á Netinu. Þessar reglur hafa því verið hafðar til hliðsjónar af stjórnendum bankans við vinnslu á skuldamálum 1998, eignahaldsfélags Haga sem á og rekur Bónus, Hagkaup, 10-11 fjölda annarra verslana.

Fram hefur komið í fréttum að eigendur 1998 ehf., sem eru Jón Ásgeir Jóhannesson og fjölskylda, hafi fengið nokkurra vikna frest frá Nýja Kaupþing til þess að koma með nýtt hlutafé inn í félagið. Hafa fimm til sjö milljarðar króna verið  nefndur í þessu samhengi. Með þessu fjárframlagi munu núverandi eigendur tryggja sér eignarhald sitt á Högum áfram. Félagið 1998 er skuldsett og eru Hagar eina eign þess.

 Félagið skuldar Nýja Kaupþing tæpa fimmtíu milljarða króna. Skuldin er tilkomin þegar Jón Ásgeir og fjölskylda keyptu Haga af sjálfum sér úr Baugi í fyrra. Bankinn lánaði 1998 allt kaupverðið en það 30 milljörðum á gengi þess tíma og fylgdi 15 milljarða rekstrarskuld með í kaupunum. Lánsféð var svo nýtt til þess að greiða eldri skuld Baugs við Kaupþing sem nam 25 milljörðum og aðra skuld við Glitni sem nam fimm milljörðum.

Leiða má líkum að því að þegar lánasamkomulagið var gert hafi það falið í sér að rekstur Haga ætti að standa undir lánagreiðslum til bankans. Hins vegar virðist fleira hafa þurft að koma til og því samhengi má nefna að Hagar voru nýverið endurfjármagnaðir með lánum frá Nýja Kaupþing og NBI með því að greiða upp skuldabréfaflokk. Fram hefur komið í fréttum að uppreiknað verð skuldabréfaflokksins hafi numið á bilinu 10 til 11 milljarða.

Þannig má leiða líkum að því að fimm til sjö milljarðar muni hrökkva skammt til þegar kemur að 1998 vegna skuldsetningar félagsins. Líklegt verður að teljast að það þurfi að koma til afskrifta eða umbreytingar á 50 milljarða skuld félagsins við Nýja Kaupþing  eigi fimm til sjö milljarða fjárframlag frá núverandi eigendum að duga til að tryggja félagið til frambúðar. Þetta hlýtur þá að virkja ákvæði í verklagsreglum Nýja Kaupþings um hæfi eigenda og stjórnenda til þess að taka þátt í rekstri félaga sem bankinn hefur komið til bjargar.


Eigendur 1998 virðast njóta þess trausts hjá forráðamönnum Nýja Kaupþings sem kveðið er á um í verklagsreglunum. Þannig situr Jóhannes Jónsson, oftast kenndur við Bónus, í nýskipaðri stjórn félagsins ásamt tveim fulltrúum bankans, þeim Sigurjóni Pálssyni og Regin Mogensen. Jón Ásgeir, sonur Jóhannesar, hefur ekki komið til greina þegar kom að því að skipa stjórnina þar sem hann má ekki sitja í stjórn félagsins vegna dóms sem hann hlaut á sínum tíma vegna starfa sinna hjá Baugi. Gjaldþrot Baugs hefur greinilega ekki orðið til þess að minnka traust forráðamanna Nýja Kaupþings en heildarkröfur í þrotabúið námu 316,7 milljörðum króna. Fram kom í frétt Morgunblaðsins þann 9. september að 27 milljarða kröfu skilanefndar Kaupþings í þrotabúið hafi verið hafnað með fyrirvörum. Samkvæmt lánabók Kaupþings frá því í september í fyrra voru lánveitingar til Baugs á gengi dagsins í dag tæpum 88 milljarðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert