Hafa vísað 20 málum til FME

Tilkynnt var í dag um fyrstu skref í afnámi gjaldeyrishafta.
Tilkynnt var í dag um fyrstu skref í afnámi gjaldeyrishafta. Ljósmynd Golli

Seðlabankinn hefur vísað til Fjármálaeftirlitsins um 20 málum þar sem grunur leikur á að lög um gjaldeyrishöft hafi verið brotin. Fleiri mál eru til skoðunar í Seðlabankanum. Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir að brot á reglunum sé alvarlegur hlutur því að með þeim sé verið að veikja krónuna og tefja lækkun vaxta.

Fram kom á blaðamannafundi í Seðlabankanum í dag að bæði einstaklingar og fyrirtæki væru grunuð um brot á lögum um gjaldeyrishöft. Seðlabankinn gerir frumrannsókn ef grunur vakar um lögbrot, en síðan vísar hann málum til Fjármálaeftirlitsins sem rannsakar málin áfram.

Viðurlög við því að brjóta reglur um gjaldeyrishöft eru stjórnvaldsektir að hámarki 75 milljónir og allt að tveggja ára fangelsi.

Már sagði að hagnaður af því að brjóta gjaldeyrishöft gæti verið mjög mikill, en mikilvægt væri að átta sig á að sá hagnaður væri tekinn af einhverjum. Þeir sem töpuðu væru þeir sem færu eftir reglunum. Brot á gjaldeyrishöftum stuðluðu að veikari krónu og tefðu fyrir lækkun vaxta.

Seðlabankinn tilkynnti í dag um fyrsta skref í afnámi gjaldeyrishafta, en opnað verður fyrir innstreymi erlends gjaldeyris til nýfjárfestinga. Már sagði að Seðlabankinn gerði sér grein fyrir að með þessu skrefi gætu opnast nýjar leiðir fyrir þá sem vilja fara í kringum reglurnar. Breytingarnar kölluðu því að aukið eftirlit. Þegar væri búið að taka ákvörðun um eflingu gjaldeyriseftirlits Seðlabankans.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert