Upplýsir ekki um afstöðu til Icesave

Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri-grænna
Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri-grænna Kristinn Ingvarsson

„Ég lýsti því yfir á sínum tíma að þetta mál færi inn í þingið skuldbindingarlaust af minni hálfu,“ sagði Ögmundur Jónasson þingmaður Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, þegar leitað var viðbragða hjá honum við þeim orðum Lilju Mósesdóttur samflokksmanns hans að hún gæti ekki samþykkt það frumvarp, sem nú liggur fyrir Alþingi um Icesave-skuldbindingarnar.

Ögmundur segist að hafa viljað að málið fengi þinglega meðferð og hefði upplýst ríkisstjórnina um annað í sinni afstöðu. Afstaða hans til Icesave kæmi því fram að aflokinni þinglegri meðferð.

Þingmenn stjórnarflokkanna eru samtals 34 á Alþingi en þingmenn stjórnarandstöðu 29.  Fræðilega séð er því svigrúm fyrir að 4 stjórnarþingmenn sitji hjá við atkvæðagreiðsluna. Afleiðingin fyrir stjórnarsamstarfið er aftur annað mál.

Lilja sagði við Ríkisútvarpið í dag, að hún hefði ekki enn gert upp við sig hvort hún sitji hjá eða greiði atkvæði gegn frumvarpinu.  Ásmundur Einar Daðason og Atli Gíslason, þingmenn VG, sögðu við RÚV að þeir hefðu ekki enn gert upp hug sinn varðandi frumvarpið. 

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, sem einnig hefur lýst andstöðu við Icesave-samningana, sagði við 1. umræðu um frumvarpið á Alþingi í október, að hún teldi heillavænlegast að afgreiða málið í þeim búningi sem það var þá í. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert