Arður barnanna fór upp í lán

Börn sem áttu stofnfé í Byr þegar aðalfundur sparisjóðsins var haldinn í apríl 2008 fengu 44% arð eins og aðrir stofnfjáreigendur. Arðurinn, samtals 86 milljónir króna, rann beint til greiðslu lána vegna stofnfjárkaupa en Glitnir hafði fjármagnað stofnfjárkaup í nafni nokkurra barna, að frumkvæði foreldra þeirra.

Samkvæmt upplýsingum frá Íslandsbanka kveða lögræðislög á um að  ógildum löggerningi af þessu tagi skuli snúið við eins og samningur hafi aldrei verið gerður.  Samningsaðilar eigi að skila því sem þeir hafa móttekið.

Þetta mun þýða að lántakendur skili Byr stofnfjárhlutunum.  Byr muni á móti skila þeim kaupverði bréfanna og foreldrar ólögráða barna eigi þá að skila láninu til baka til Glitnis eða í þessu tilviki Íslandsbanka. Aðgreiðslur, sem þegar hafa verið inntar af hendi og hafa runnið til greiðslu lánanna komi þar til frádráttar, samkvæmt upplýsingum frá Íslandsbanka.

Nokkur erindi bárust vegna barnalána

Fram kemur á heimasíðu sýslumannsins í Reykjavík, að árið 2007 hafi borist nokkur erindi þess efnis að samþykkt yrði að ófjárráða börn myndu kaupa stofnfé í Byr fyrir lánsfé frá Glitni með veði í hinu keypta stofnfé.  

Umsækjendur, sem voru lögráðamenn barnanna, áttu þess kost að uppfylla tiltekin skilyrði fyrir að erindi fengist samþykkt, þar á meðal það að lánveitandinn lofaði að ekki yrði gengið að lántaka, þ.e. barninu, umfram andvirði hins veðsetta. Málin voru felld niður þar sem skilyrðin voru ekki uppfyllt og erindunum var ekki fylgt eftir.

Nú hafi komi í ljós, að bankinn veitti einhverjum ólögráða börnum lán vegna stofnfjárkaupa í Byr, þótt ekki sé vitað um hvort það séu sömu börnin. Sá gjörningur sé óskuldbindandi fyrir hin ófjárráða börn þar sem samþykki yfirlögráðanda skorti.

Byr sparisjóður
Byr sparisjóður
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert