Nítján húsleitir vegna gruns um skattsvik

Farið var í nítján húsleitir á vegum efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra í dag en skattrannsóknarstjóri hefur kært til deildarinnar fjórtán mál þar sem erlend greiðslukort eru notuð hérlendis en skuldfærð erlendis, einkum í Lúxemborg. Með því komast viðkomandi hjá því að greiða skatta af tekjum sínum.

Að sögn Helga Magnúsar Gunnarssonar, saksóknara efnahagsbrota, var gerð húsleit á fjórtán heimilum og í skrifstofum fimm einkahlutafélaga þeim tengdum, til að afla gagna um hvaðan féð til greiðslu greiðslukortareikninganna kom en lagt var hald á bæði tölvur og pappírsgögn. Húsleitirnar fóru aðallega fram á höfuðborgarsvæðinu en ein húsleit var gerð á Ísafirði. Alls tóku um fimmtíu manns þátt í þeim.

Skattrannsóknarstjóri var í vor með um þrjátíu mál þar sem grunur lék á að erlend greiðslukort væru notuð til skattsvika. Helgi Magnús segir að send hafi verið út bréf til viðkomandi aðila og beðið um skýringar, þar sem þær innlendu greiðslur sem notaðar voru til að greiða af kortunum komu ekki fram á skattframtölum. Því lék grunur á að viðkomandi væru að fá arð af einhvers konar erlendri fjárfestingastarfsemi og greiddi ekki af honum fjármagnsskatt.

Helgi Magnús sagði, að kortin væru aðallega upprunnin í Lúxemborg. Um er að ræða fjórtán kort sem en hins vegar eru mögulegir sakborningar eitthvað fleiri, þar sem í sumum tilfellum er um að ræða hjón og í einhverjum tilfellum óljóst hvort bæði nutu góðs af notkun kortanna, þar sem þau voru ekki gefin út á nafn heldur aðeins númeruð.

Helgi Magnús segir hin málin sextán hafi verið þess eðlis að gefnar hafi verið skýringar og gögn sem taldar hafi verið það fullnægjandi að ekki hafi verið talin ástæða til húsleitar.

Hann segir að þar sem skattrannsóknarstjóri hafi kært húsleitarmálin til efnahagsdeildarinnar séu þau nú á forræði deildarinnar en unnið verði að þeim í samstarfi við skattrannsóknarstjóra. Í framhaldinu verði tekin ákvörðun um hvort ástæða sé til að gefa út opinberar ákærur, ef brotin teljist það alvarleg. Skattstjóri hafi einnig heimild til að ljúka því sem teljist minniháttar brot  með sekt og endurálagningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert