Fréttaskýring: Ekki til umræðu að taka niður torfbæi

Glaumbær í Skagafirði
Glaumbær í Skagafirði mbl.is/Ómar

Forstöðumaður húsafriðunarnefndar segir að til greina komi að taka niður það sem eftir er af bænum Hólum í Eyjafirði. Ekki sé til umræðu að rífa fleiri mannvirki í húsasafni Þjóðminjasafnsins.

Nú eru um 45 byggingar í húsasafninu. Þar af eru liðlega tuttugu torfhús, þar á meðal flestir stærstu og mikilvægustu torfbæir landsins sem hver um sig telur fjölda húsa.

Torfhúsin þurfa stöðugt viðhald og vinna við viðhald og viðgerðir þeirra er dýr. Húsafriðunarnefnd annast viðhald á mannvirkjum húsasafnsins samkvæmt þjónustusamningi við Þjóðminjasafnið. Nefndin fær 70 milljónir kr. til þess í ár og útlit er fyrir svipaða fjárveitingu á næsta ári.

Nikulás Úlfar Másson, forstöðumaður húsafriðunarnefndar, segist gjarnan vilja fá meiri fjármuni í þennan málaflokk. „Við reynum okkar ýtrasta en það má gera betur. Segja má að við höldum í horfinu og tæplega það,“ segir Nikulás.

Síðustu árin hefur mest áhersla verið lögð á viðgerðir á bæjunum á Galtastöðum, Bustarfelli og Laufási. Önnur hús hafa þurft að bíða.

 Þarf að forgangsraða

Helgi Sigurðsson, torfhleðslumaður í Skagafirði sem vinnur mikið við viðhald torfbæjanna, sagði í viðtali sem birtist í Morgunblaðinu í gær að torfbæirnir lægju undir skemmdum vegna fjárskorts. Telur hann að Íslendingar standi frammi fyrir þeirri erfiðu ákvörðun að fækka húsunum í húsasafni Þjóðminjasafnsins og leggja áherslu á að gera almennilega við þau sem eftir verða.

Nikulás Úlfar Másson segir að þegar peningar séu takmarkaðir þurfi að forgangsraða mjög vandlega. Hann segir að til greina komi að taka niður það sem eftir er af torfbænum á Hólum í Eyjafirði en hluti hans var tekinn niður fyrir nokkrum árum. Timbrið úr húsunum sem tekin voru niður er í geymslu þar sem það hefur skemmst vegna raka. Reiknar Nikulás ekki með því að sá bær verði endurgerður í bráð.

„Ekki hefur komið til umræðu að taka niður aðra bæi. Reynslan sýnir að þeir fara yfirleitt ekki upp aftur, þegar það er gert. Við teljum það skyldu okkar að varðveita þá á staðnum,“ segir hann.

 Of dýrt fyrir einstaklinga

Þótt flestir helstu torfbæirnir séu í húsasafninu er fjöldi merkra torfhúsa í einkaeigu, hús sem eru að falla. Einnig leifar merkra torfhúsa. Einstaklingar hafa almennt ekki tök á að halda þeim við og þess vegna eru svona mörg torfhús komin í húsasafn Þjóðminjasafnsins. Áhugi er á því í húsafriðunarnefnd að láta gera úttekt á þessum húsum og meta hvað beri að varðveita. „Ég sé frekar fyrir mér að við það fjölgi í húsasafninu en fækki,“ segir Nikulás. Reiknar hann með áframhaldi á þeirri umræðu í tengslum við úthlutun styrkja úr húsafriðunarsjóði fyrir næsta ár en auglýst hefur verið eftir umsóknum.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert