Vilja að Fjarðabyggð yfirtaki stjórn heilsugæslu

Hluti fundargesta í Kirkju- og menningarmiðstöðinni á Eskifirði í gærkvöldi.
Hluti fundargesta í Kirkju- og menningarmiðstöðinni á Eskifirði í gærkvöldi. mbl.is/Helgi Garðarsson

Á íbúafundi í Fjarðabyggð í gærkvöldi voru samþykktar ályktanir þar sem  m.a.  var skorað á bæjarstjórn Fjarðabyggðar að hefja nú þegar viðræður við heilbrigðisyfirvöld um að Fjarðabyggð taki að sér stjórn heilsugæslu í Fjarðabyggð.

Fundurinn var haldinn á vegum stuðningsmanna Hannesar Sigmarssonar, yfirlæknis Heilsugæslu Fjarðabyggðar. Hannes var leystur tímabundið frá störfum fyrr á árinu vegna gruns um að hann hefði misfarið með fé Heilbrigðisstofnunar Austurlands. Lögregla og ríkissaksóknari hafa fjallað um þessar grunsemdir en ákveðið að fella niður rannsókn. Það sama hefur Ríkisendurskoðun gert.

Fram kemur á fréttavefnum Austurglugganum, að um 300 manns hafi sótt fundinn, sem haldinn var á Eskifirði. Þar var einnig samþykkt ályktun þar sem því er beint til viðkomandi yfirvalda að fram fari rannsókn á því hvort stjórnendur Heilbrigðisstofnunar Austurlands hafi framið stjórnsýslulagabrot á  Hannesi  og hvort forstjóri stofnunarinnar hafi framið mannréttindabrot á yfirlækninum.

Fundinn sátu, auk heimamanna, Kristján Þór Júlíusson, alþingismaður, Matthías Halldórsson, landlæknir og Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri heilbrigðisráðuneytis.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert