Landspítali á viðbúnaðarstig

Sjö eru á gjörgæslu vegna svínaflensu
Sjö eru á gjörgæslu vegna svínaflensu mbl.is/Ómar Óskarsson

Viðbragðsstjórn hefur fært Landspítala úr gulu í grænt, þ.e. af virkjunarstigi á næsta stig fyrir neðan í viðbragðsáætlun spítalans en það nefnist viðbúnaðarstig. Alls eru 25 sjúklingar á spítalanum með svínaflensu (H1N1) en þar af eru sjö á gjörgæslu. Fimm hafa verið útskrifaðir síðasta sólarhringinn en tveir nýir verið lagðir inn með inflúensu.

 Viðbragðsstjórn breytti viðbúnaðarstigi spítalans úr grænu í gult þann 29. október s.l. þar sem fjöldi innlagðra sjúklinga vegna farsóttar og álag hamlaði starfsemi gjörgæsludeilda spítalans.

Í daglegu eftirliti með fjölda innlagðra sjúklinga með inflúensu virðist að þeim fari fækkandi, nú fimmta daginn í röð. Ennþá leggjast inn veikir einstaklingar á spítalann, þó í minna mæli en áður, að því er fram kemur á vef Landspítalans.

Enn nokkrir mikið veikir og mikið álag á starfsfólk

„Nú eru nokkrir mikið veikir einstaklingar á gjörgæsludeild LSH vegna inflúensusýkingar og álag á starfsfólk ennþá mikið þó það sé viðráðanlegra en áður. Í ljósi þess hefur viðbragðsstjórn ákveðið að færa starfsemi sjúkrahússins af gulu á grænt viðbúnaðarstig.

Áfram er stöðug vöktun á fjölda innlagðra og gjörgæslusjúklinga og viðbúnaðarstig endurskoðað daglega. Breyting á viðbragðsstigi spítalans táknar að starfsemi LSH færist nær eðlilegri starfsemi.

Farsóttarnefnd starfar áfram og viðbragðsstjórn eftir þörfum. Einnig er mikilvægt að starfsmenn séu vakandi fyrir þeim möguleika að sjúklingar sem hafa óvenjuleg einkenni eða leita til spítalans vegna annarra vandamála séu í raun með inflúensu. Slíkir sjúklingar geta leynst bæði á bráðamóttökum og á deildum. Ennþá eru í gildi tilmæli um heimsóknartakmarkanir," að því er segir í tilkynningu á vef LSH.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert