Þátturinn tekinn af dagskrá

Guðmundur Magnússon frambjóðandi
Guðmundur Magnússon frambjóðandi

Ingvi Hrafn Jónsson, sjónvarpsstjóri á ÍNN sjónvarpsstöðinni, ákvað að viðtalsþáttur Jóns Kristins Snæhólm, Í kallfæri, sem vera átti á dagskrá kl. 21.00 í kvöld yrði ekki sendur út. Þátturinn var þó settur á vef stöðvarinnar. Jón Kristinn kveðst vera mjög ósáttur við ákvörðun sjónvarpsstjórans.

Jón Kristinn kvaðst hafa boðið tveimur frambjóðendum, Ásgerði Halldórsdóttur og Guðmundi Magnússyni, sem keppa um 1. sætið í prófkjöri Sjálfstæðismanna á Seltjarnarnesi á morgun að koma í þáttinn. Ásgerður afboðaði komu sína sakir anna og því mætti Guðmundur einn í þáttinn sem tekinn var upp í dag.

„Ég ákvað að halda mínu striki, tók upp þáttinn og hann var mjög góður. Ingvi Hrafn tók ákvörðun um að senda þáttinn ekki út fyrst Guðmundur var einn,“ sagði Jón Kristinn.  Hann segir að Ingvi Hrafn hafi gefið ástæðu fyrir ákvörðun sinni.

„Hann sagði að fyrst hún [Ásgerður] hafi ekki mætt og hann [Guðmundur] hefði fengið einn pláss þá væri það ekki í anda stöðvarinnar,“ sagði Jón Kristinn. Hann kvaðst hafa breytt upptökutíma þáttarins þrisvar til að koma til móts við Ásgerði, en hún aldrei getað komið.

Jón Kristinn kvaðst hafa krafist þess að þátturinn yrði settur á heimasíðu stöðvarinnar. Hann sagði þetta ekki hafa nein eftirmál og að hann hugsi sér ekki að hætta með þætti á stöðinni.

„En ég sagði við Ingva Hrafn að ég væri mjög ósáttur við þessa ákvörðun,“ sagði Jón Kristinn. Hann sagði að Ingvi Hrafn hafi sjálfur tilkynnt viðmælandanum, Guðmundi Magnússyni, þessa ákvörðun sína.

Viðtalsþátturinn við Guðmund Magnússon

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert