Stjórnmálaforingjum send áskorun

Fundarmenn skora á stjórnmálaforingja að standa með Suðurnesjum.
Fundarmenn skora á stjórnmálaforingja að standa með Suðurnesjum. Ómar Óskarsson

Samstöðufundur var haldinn í Kúagerði að lokinni Keflavíkurgöngu um kl. 14.00 í dag. Einar Bárðarson, frumkvöðull göngunnar, sagði að um 300 manns hafi gengið frá Vogaafleggjara að Kúagerði og þar bættust fleiri í hópinn.  „Það voru 300 sem vörðu Spörtu á sínum tíma,“ sagði Einar hress í bragði.

Einar sagði að Páll Pálsson frá Virkjun hafi haldið stutta tölu í Kúagerði. „Hann lýsti ástandinu séð með augum þeirra sem eru atvinnulausir,“ sagði Einar. Páll afhenti síðan fulltrúum formanna stjórnmálaflokkanna áskorun þverpólitísku göngunnar um að ráðamenn gangi í takt við ástandið á Suðurnesjum.

„Hér voru 1.600 atvinnulausir um síðustu mánaðamót,“ sagði Einar. „Það er von okkar að þeir [stjórnmálaforingjarnir] greiði fyrir öllum þeim verkefnum sem standa nánast tilbúin til framkvæmda. Þá eru nefnd álver í Helguvík, gagnaver á Ásbrú, heilsutengd ferðaþjónusta á Ásbrú, menningartend ferðaþjónusta um allt svæðið og þá er fátt eitt upptalið,“ sagði Einar. 

Í tilkynningu frá Einari Bárðarsyni, sem barst kl.  15:39, segir m.a. að þingmenn frá flestum flokkum hafi mætt á svæðið, meðal annars, formaður Sjálfstæðisflokksins Bjarni Benediktsson, Katrín Júlíusdóttir 
iðnaðarráðherra og fyrrverandi heilbrigðisráðherra Ögmundur Jónasson. Þeim var afhent svohljóðandi yfirlýsing:

„Atvinnulíf á Suðurnesjum hefur orðið fyrir verulegum áföllum á 
undanförnum árum. Skammt er síðan  níuhundruð íslensk störf töpuðust  fyrirvaralaust við brotthvarf varnaliðsins. Störf í sjávarútvegi hafa dregist verulega saman og byggingariðnaður er lítill sem enginn um þessar mundir. Suðurnesjamenn hafa samt ekki gefist upp. Á síðustu  árum hafa fjölmörg verkefni verið í undirbúningi sem geta á næstu vikum og mánuðum skilað þúsundum manna betur launuðum störfum og stóraukið gjaldeyristekjur fyrir þjóðina. Stærstu og mikilvægustu verkefnin sem undirbúin hafa verið eru:

Álver í Helguvík
Kísilver í Helguvík
Gagnaver að Ásbrú
Keilir, mennta- fræða- og vísindasamfélag að Ásbrú

Heilsutengd ferðaþjónusta að Ásbrú
Jarðauðlindagarðar í Svartsengi og á Reykjanesi
Tónlistarverkefnið Hljómahöll í Reykjanesbæ
Stóraukin flugtengd starfsemi
Menningartengd ferðarþjónusta á Suðurnesjum


Eins og að framan greinir er fjölbreytni þessara verkefna gríðarleg. 
Hér um að ræða störf á sviði mennta,  lista, vísinda, iðnaðar og 
heilsu, bæði fyrir karla og konur. Verði hafist handa við þessi 
verkefni  strax munu þau skila störfum innan fárra vikna.
Krafa okkar er að stjórnvöld standi ekki í vegi þessara verkefni.

Krafa okkar er að allir stjórnmálaflokkar á Íslandi standi með okkur 
til uppbyggingar.  Sú samstaða  mun veita fólki í atvinnuleit von um 
bætan hag og framtíð.“

Einar Bárðarson.
Einar Bárðarson. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert