Engin niðurstaða í máli 1998

Bónus og Hagkaup eru í eigu Haga.
Bónus og Hagkaup eru í eigu Haga. mbl.is/Kristinn

Nýja Kaupþing segir, að ekki sé komin niðurstaða í máli 1998, móðurfélags Haga, og ítrekar bankinn að allar tölur sem nefndar hafi verið í fjölmiðlum séu úr lausu lofti gripnar. Hins vegar staðfestir bankinn, að hann hafi yfirtekið hlutabréf 1998.

Í tilkynningu frá Nýja Kaupþingi segir að 1998 sé enn í úrlausnarferli hjá bankanum. Yfirtaka á hlutabréfum félagsins sé liður í því að tryggja hagsmuni bankans í yfirstandandi ferli. Fram kom í dag, að Nýja Kaupþing hafi tilkynnt Samkeppniseftirlitinu um samruna bankans við 1998. Tilkynningin barst seint í október en samkvæmt lögum verður að tilkynna um slíkan samruna eigi síðar en viku eftir að samningar nást.

„Í öllum skuldamálum fyrirtækja sem koma til skoðunar í bankanum er fylgt verklagsreglum bankans. Í þeim segir m.a. að bankinn leggi áherslu á samstarf við eigendur og stjórnendur í vinnu við endurskipulagningu fyrirtækja. Þannig er eigendunum gefið tækifæri til að koma á framfæri hugmyndum að lausn á vandamálum fyrirtækja sinna. Til að gæta jafnræðis telur bankinn mikilvægt að nálgast öll mál með þessum hætti.

Þótt eigendur fyrirtækja fái tækifæri til að leggja fram hugmyndir að lausn á skuldavanda félaga sinna er ljóst að þær þurfa að vera raunhæfar. Þær  þurfa þannig að standast samanburð við aðra möguleika í stöðunni og vera í takt við kröfu bankans um að endurheimta sem mest af verðmætum sínum," segir í tilkynningunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert