Fordæma aðgerðir barnaverndarnefndar

Breiðavíkursamtökin voru stofnuð um réttindi barna sem vistuð voru í …
Breiðavíkursamtökin voru stofnuð um réttindi barna sem vistuð voru í Breiðavík. mynd/bb.is

„Breiðavíkursamtökin fordæma þá gjörð, sem sagt var frá í fréttum Sjónvarpsins í gærkvöldi, 9. nóvember 2009, að Barnaverndarnefnd Reykjavíkur hefur svipt Helgu Elísdóttur umsjá annars dóttursonar síns, án undangengins dómsúrskurðar, og ætlar að senda hann í fóstur út á land með hraði,“ segir í tilkynningu Breiðavíkursamtakanna.
 
„Svipting með þessum hætti hlýtur að vera ólögmæt án dómsúrskurðar, jafnvel þótt barnaverndarnefndin telji sig hafa einhver efnisrök í höndum. Sagan sýnir að slíkar nefndir geta hæglega haft rangt fyrir sér og telja Breiðavíkursamtökin að nefndin sé að líkindum að gera nákvæmlega hið sama og gert var við Breiðavíkurbörnin og börn fleiri vistheimila fyrr á árum - farið er fram með offorsi og geðþótta og ákvarðanir teknar í blóra við lög.

Breiðavíkursamtökin fordæma þessa siðlausu ákvörðun og krefjast þess að dómsyfirvöld grípi inn í málið áður en drengurinn verður sendur út á land á morgun, miðvikudag. Jafnframt krefjast samtökin þess að svipting Barnaverndarnefndar Reykjavíkur án undangengins dómsúrskurðar verði rannsökuð ofan í kjölinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert