Leyft að reiða á reiðhjóli

Í drögunum er lagt til að börn verði að hafa …
Í drögunum er lagt til að börn verði að hafa náð 135 sm hæð til að vera farþegar á mótorhjólum. Árni Sæberg

Bannað verður að henda rusli úr ökutæki á ferð og leyft verður að reiða á til þess búnum reiðhjólum samkvæmt drögum að frumvarpi til nýrra umferðarlaga. Fallið hefur verið frá ákvæði um hámarksfjölda farþega í bílum ungra ökumanna um helgar.  Drögin eru nú lögð fram í annað sinn.

Frumvarpsdrögin eru fjölþætt. Þar er m.a. lagt til að ef hjólastígur og göngustígur liggi samhliða verði einungis leyft að hjóla á hjólastígnum. 

Í 42. grein er lagt til að „[í] stað þess að bannað sé að reiða farþega á reiðhjóli (eldri en 7 ára) er lagt til að heimilt sé að hafa farþega á reiðhjóli ef það er sérstaklega til þess gert.“

Umdeilt ákvæði um takmörkun á fjölda farþega ungra ökumanna aðfaranótt föstudags og laugardags hefur verið tekið út.

Þá er lagt til að ákvæði um ökukennslu og ökunám verði einfölduð nokkuð og jafnframt er  ökunámsnefnd sem lagt var til að sett yrði á stofn í upphaflega frumvarpinu tekin út í þessum drögum.

Lagt er til að heimild til æfingaaksturs verði lengd í 18 mánuði. Einnig að æfingaakstur á bifhjóli skuli fara fram á lokuðum svæðum.

Þá er lagt til að ákvæði um notkun hlífðarfatnaðar við akstur bifhjóla verði tekið út, en hagsmunaaðilar munu hafa sett fram ítarleg rök fyrir því að óraunhæft sé með öllu að lögbinda notkun slíks hlífðarfatnaðar.

Lagt er til að gjald vegna einkamerkis verði hækkað í 50.000 krónur en það var 25.000 krónur.

Drög að frumvarpi til nýrra umferðarlaga eru nú til umsagnar öðru sinni hjá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu. Unnt er að senda inn umsögn um drögin til og með 26. nóvember n.k.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert