Gagnrýna ráðningar án auglýsinga

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Heiðar

Þingmenn á Alþingi voru nokkuð einróma í dag í gagnrýni á þá starfshætti í ráðuneytum, að ráða fólk til starfa tímabundið án auglýsingar. Fram kom í svari við fyrirspurn á Alþingi í vikunni að 42 starfsmenn hefðu verið ráðnir án auglýsingar til starfa í ráðuneytunum frá áramótum.  

Ásbjörn Óttarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, vakti máls á þessu í upphafi þingfundar og vísaði í grein eftir Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur, stjórnsýslufræðing, í Fréttablaðinu í vikunni þar sem hún gagnrýndi slíkar ráðningar. Sagði hún að um væri að ræða birtingarmynd pólitísks klíkuskapar og vinaráðninga sem þekktust víða en væru hvað útbreiddastar í vanþróuðum ríkjum.

Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingmaður Samfylkingar, sagðist ekki geta tekið upp hanskann fyrir ráðningar sem ákveðnar væru í reykfylltum bakherbergjum og afleiðingarnar birtust síðan á forsíðum dagblaða. Sagði Sigmundur Ernir að það bæri að ráða hæft fólk fyrst og fremst í störf hjá ríkinu og ríkja þyrfti algert gagnsæi þegar komi að ráðningum í opinber störf. Leyfa mætti klárar undantekningar en þær þyrftu að vera augljósar. Ef til vill mættu ráðuneytisstjórar vera pólitískt ráðnir og auðvitað aðstoðarmenn ráðherra en ekki aðrir.

Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði að það vekti athygli að aðeins einn ráðherra, sem nú væri fyrrverandi ráðherra, þ.e. Ögmundur Jónasson, hefði komist hjá því að ráða í starf hjá heilbrigðisráðuneytinu án auglýsingar á meðan hann gegndi embættinu.

Ögmundur sagði að ástæðan fyrir því, að ekki var ráðið með þessum hætti í heilbrigðisráðuneytið í ráðherratíð hans væru einkum þær að ekki hefðu orðið miklar mannabreytingar með ráðherraskiptunum og innan ráðuneytisins væri stunduð mjög góð stjórnsýsla af hálfu þeirra sem halda utan um hlutina þar. Þá sagðist Ögmundur vera mjög meðvitaðar um reglur um mannaráðningar í opinber störf vegna starfa sinna hjá BSRB. 

Ögmundur sagði, að það hefði oft verið leikið, að menn væru ráðnir tímabundið í störf hjá hinu opinbera án auglýsingar. Eftir 1-2 ár væri starfið síðan auglýst og beðið um reynslu í starfi.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert