Tillögur um raunhæf fjárlög án skattahækkana

Ólafur Nielsen afhendir Guðbjarti Hannessyni skýrsluna.
Ólafur Nielsen afhendir Guðbjarti Hannessyni skýrsluna.

Samband ungra sjálfstæðismanna sendir í dag öllum þingmönnum skýrslu með tillögum um niðurskurð á fjárlögum ríkisins fyrir næsta ár þannig að ekki þurfi að koma til skattahækkana.

Ólafur Örn Nielsen, formaður SUS, afhenti af þessu tilefni Guðbjarti  Hannessyni, formanni fjárlaganefndar Alþingis, fyrsta eintak skýrslunnar í Alþingishúsinu í dag.

SUS segir, að fjárlagafrumvarp fjármálaráðherra geri ráð fyrir 87,4 milljarða króna halla þrátt fyrir 63,1 milljarða króna skattahækkanir. Aðeins sé gert ráð fyrir að útgjöld ríkisins lækki um 7,3% að raunvirði á næsta ári. Það sé miður í ljósi þess að ríkisútgjöld hafi stóraukist síðustu árin og því sé  verulegt svigrúm til enn meiri sparnaðar. Segir SUS raunar, að Sjálfstæðisflokkurinn eigi að biðjast afsökunar á sínum þætti í því að hafa stóraukið ríkisútgjöld á síðustu árum.

Stjórn SUS telur að vel sé hægt að spara í rekstri ríkisins þannig að hægt verði að ná fram raunhæfum fjárlögum án skattahækkana og án þess að það komi verulega niður á velferðar‐, heilbrigðis‐ eða menntakerfinu. Leggur  SUS til, að útgjöld ríkisins verði lækkuð um 72,7 milljarða.

Auk þess megi varlega áætla að breyting á skattlagningu lífeyrisgreiðslna muni bæta afkomu ríkissjóðs um allt að 40 milljarða króna og að bætt umhverfi viðskiptalífsins myndi skapa um 5000 störf og 15 milljarða í auknum skatttekjum. Samanlagt sé því um að ræða 127,7 milljarða króna sem  myndu minnka fjárlagahallann um 64,6 milljarða án skattahækkana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert