Málefni leikskóla rædd

Á fimmta tug foreldra mættu til fundar sem leikskólasvið Reykjavíkurborgar boðaði til í gær um forsendur í fjárhagsáætlun og starfsáætlun fyrir leikskóla borgarinnar 2010. Meðal þess sem foreldrar spurðu um var skilgreining borgaryfirvalda á hugtakinu grunnþjónusta, samkvæmt frétt á vef Reykjavíkurborgar.

Eftir stuttar framsögur frá Ragnari Sæ Ragnarssyni, formanni leikskólaráðs, og Hildi Skarphéðinsdóttur, skrifstofustjóra á Leikskólasviði, spunnust fjörugar umræður um flest er viðkemur leikskólarekstri, faglegu starfi, stefnumótun og þátttöku foreldra. Meðal þess sem foreldrar spurðu um var skilgreining borgaryfirvalda á hugtakinu grunnþjónusta. Þá var farið yfir ný lög og reglugerðir um leikskóla og skipst á skoðunum um starfsmannahald og rekstrarforsendur. 

Fulltrúar í leikskólaráði, sviðsstjóri og aðrir starfsmenn Leikskólasviðs sátu fyrir svörum og ræddu við foreldra.

Á fundinum komu fram óskir um enn frekara samráð við foreldra um mögulegar breytingar í rekstri leikskólanna vegna efnahagsþrenginganna. Formaður leikskólaráðs fagnaði framkomnum hugmyndum og lagði til að fundað yrði með foreldrum að nýju að hálfu ári liðnu. Ánægja var með fundinn og þótti hann upplýsandi og gagnlegur fyrir foreldra sem og fulltrúa borgarinnar, samkvæmt því sem segir á vef borgarinnar.    

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert