Þorsteinn skuldar skýringar

Sturla Böðvarsson.
Sturla Böðvarsson.

Sturla Böðvarsson, fyrrverandi alþingismaður, segir að Þorsteinn Pálsson skuldi sér skýringar á því hvers vegna hann telji að Íslendingar þurfi að fara upp í hraðlest Össurar Skarphéðinssonar til Brussel.

„Ég get ekki séð hvaða nauðir ráku Þorstein Pálsson til þess að setjast við borðið með starfsmönnum utanríkisráðuneytisins og sérstökum áhugamönnum um að við sættum okkur við Icesave-samninginn. En lengi má manninn reyna. Vonandi kemur að því að hann skýri það fyrir okkur gömlum stuðningsmönnum sínum á hvaða leið hann er og hversvegna hann telur okkur þurfa að fara upp í hraðlest Össurar Skarphéðinssonar til Brussel og fórna m.a. því sem hann hafði svo vel gert sem sjávarútvegsráðherra. Ég bíð spenntur eftir að lesa eða heyra þær skýringar. Hann skuldar mér skýringar og væntanlega fleirum sem trúað hafa á dómgreind hans og hyggindi," segir Sturla m.a. á bloggsíðu sinni. 

Hann segir m.a. að mátt hefði ætla að fyrrverandi formenn Sjálfstæðisflokksins hefðu skilning á því að Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, þurfi stuðning og frið til þess að styrkja stöðu sína til þess að takast á við að efla flokkinn og skapa sátt um stefnuna og forystu flokkins. 

„Hann þarf ekki á því að halda að fyrrverandi formenn gangi gegn honum á ögurstundu í stærstu málum samtímans, þar á meðal  spurningunni  um aðild að Evrópusambandinu," segir Sturla.

Bloggsíða Sturlu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert