„Framboðið kom á óvart“

Óskar Bergsson, oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík.
Óskar Bergsson, oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík. mbl.is/Billi

Óskar Bergsson, oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík, segir að framboðstilkynning Einars Skúlasonar, fyrrverandi skrifstofustjóra þingflokks framsóknarmanna, hafi komið sér á óvart, en Einar sækist eftir fyrsta sæti flokksins vegna komandi borgarstjórnarkosninga.

„Ég verð nú bara að viðurkenna það að þetta framboð kom mér á óvart. Það hefur gengið vel hjá okkur eftir að ég tók við sem borgarfulltrúi við mjög erfiðar aðstæður,“ segir Óskar í samtali við mbl.is, en hann hefur lýst því yfir að hann sækist eftir 1. sætinu í Reykjavík.

Hann bendir á að flokkstarfið í Reykjavík sé mun öflugra nú en verið hafi um langt skeið. Þá segir Óskar að meirihlutasamtarf Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins í Reykjavík gangi mjög vel.

Aðspurður segir Óskar þó að hann telji það vera styrkleikamerki að menn takist á um efstu sætin í flokknum. 

Þann 28. nóvember nk. verður haldinn kjörfundur flokksins í Reykjavík vegna vals á lista fyrir borgarstjórnarkosningarnar á næsta ári. „Þetta er opinn kjörfundur þannig að við hleypum öllum flokksbundnum aðilum að. Það er lýðræðislegur réttur hvers og eins að bjóða sig fram í því. Ég tek því bara eins og það er. Það er ekkert óeðlilegt við það,“ segir Óskar.

Aðspurður segir Óskar óhjákvæmilegt að það verði breyting hjá framsóknarmönnum í Reykjavík.

„Ég hef verið nánast einn eftir af þeim frambjóðendum sem voru efstir á listanum fyrir síðustu kosningar. Mikið af öflugu fólki úr grasrót flokksins hefur gengið til liðs við okkur, auk þess sem margir nýir félagar hafa komið inn líka,“ segir Óskar og bætir við aðspurður að það sé mjög mikilvægt að Framsóknarflokkurinn efli stöðu sína í Reykjavík. Hann telur að flokkurinn hafi alla burði til þess.

Óskar telur sig hafa mikinn stuðning til að leiða flokkinn í borginni. „Nú tökumst við bara á. Ég hef fundið það, m.a. í skoðanakönnunum, að flokkurinn er að mælast með mann inni í fyrsta skipti um langa hríð. Þess vegna er ég bjartsýnn á niðurstöðuna,“ segir Óskar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert