Skorið niður um milljarð á tveimur árum

Frá Vestmannaeyjum.
Frá Vestmannaeyjum. mbl.is/Brynjar Gauti

Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyja, segir að á tveimur árum hafi ríkisútgjöld í Eyjum verið skorin niður um rúman milljarð. Hann hefur sent öllum þingmönnum bréf þar sem er að finna yfirlit yfir þá liðið í fjárlögum 2008, 2009 og 2010 þar sem Vestmannaeyjar koma fyrir.

„Eins og þið sjáið af meðfylgjandi yfirliti [sjá í viðhengi] eru verulega blikur á lofti og ljóst að sársaukafullar aðgerðir verða boðaðar á næstu mánuðum ef þetta verður niðurstaðan.  Yfirlitið sýnir að árið 2008 runnu 2.577.096.391 krónur til þessara liða í Vestmannaeyjum. Ráðgert er að árið 2010 renni 2.154.338.037 krónur til sömu liða. Sem sagt niðurskurður um 422.758.354 krónur.  Á þessum sama tíma hækkar vísitala neysluverðs um 18,14% á árinu 2008 og hefur hækkað um 6,2% árinu 2009. Ef fjárlög 2008 hefðu fylgt vísitölu hefðu þau numið 3.233.345.740 en ekki 2.154.338.037. Raun niðurskurður er því vart undir 1.079.007.703, eða 33%.  Sem sagt rúmlega þúsund milljónir á tveimur árum,“ skrifar Elliði.

Hann segist hafa það á tilfinningunni að það muni bitna hart á íbúum Vestmannaeyja þegar ríkisstjórnin muni setjast niður til að ræða sín mál, því þá eigi Suðurkjördæmi engan fulltrúa við borðið. Til að bæta gráu ofan á svart eigi Suðurkjördæmi einungist einn fulltrúa í fjárlaganefnd, en Norðvesturkjördæmi þrjá og Norðausturkjördæmi fjóra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert