Skattahækkanir koma verst niður á millistéttinni

Bjarni Benediktsson.
Bjarni Benediktsson. mbl.is/Árni Sæberg

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að sér lítist mjög illa á skattahækkunaráform ríkisstjórnarinnar. „Það er augljóslega verið að flækja skattkerfið og draga úr hvata, bæði til vinnu og sparnaðar,“ segir hann. Hann segir millistéttina í landinu verða fyrir þyngsta högginu.

„Þeir sem fara verst út úr þessu eru millistéttin. Það eru kynntar skattalækkanir á þá lægst launuðu, en ávinningurinn af þeim, sýnist mér, er að mestu tekinn til baka með óbeinum sköttum. Eftir sitjum við með mun flóknara skattkerfi, sem m.a. mun leiða til þess að hjón muni ekki njóta sambærilegra samsköttunarmöguleika eins og gilt hefur,“ segir Bjarni í samtali við mbl.is.

Hann segir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi bent á leiðir til þess að forða millistéttinni í landinu og atvinnustarfseminni frá auknum álögum.

Hann bendir jafnframt á að stjórnvöld séu enn ekki komin með trúverðuga áætlun um það hvernig hún hyggist fjármagna og loka fjárlagagatinu.

„Ríkisstjórnin hefur greinilega farið algerlega fram úr sér með þeim hugmyndum sem teflt var fram í fjárlagafrumvarpinu,“ segir hann. Það sé t.d. búið  að draga úr skattlagningu á einstaklinga um 25 milljarða kr. miðað við það sem lagt hafi verið af stað með í fjárlagafrumvarpinu. Sama gildi um ýmsa aðra skatta.

„Eftir sitja skattar, sem fyrst og fremst munu leggjast á millistéttina í landinu, flækja skattkerfið, stórauka álögur á átvinnustarfsemina og, að okkar mati, eru líklegar til þess að viðhalda, lengur en nauðsynlegt er, atvinnuleysinu og draga krísuna á langinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert