Forsætisráðherra er til

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Heiðar

Varaforseti Alþingis lýsti því yfir undir kvöld, að hann væri fullviss um að forsætisráðherra væri til og því yrði freistað að fá ráðherrann í þinghúsið til að hlýða á ræður þingmanna um Icesave-skuldbindingarnar.

Aðdragandinn að þessum ummælum Árna Þórs Sigurðssonar, þingmanns VG og varaforseta þingsins, voru umkvartanir þingmanna Framsóknarflokksins um hve fáir stjórnarþingmenn væru í þingsalnum þar sem önnur umræða um ríkisábyrgð vegna Icesave stendur yfir.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, hefði fyrr í dag neitað því að svara fyrirspurn frá sér þar sem hún sá hann ekki í þingsalnum.

„Það er þannig með ungabörn, að þegar eitthvað hverfur sjónum þeirra þá telja þau að það sé ekki lengur til. Þetta virðist hafa hent forsætisráðherra fyrr í dag og þess vegna er það mikið áhyggjuefni að forsætisráðherra skuli ekki vera hér í kvöld. Hann gerir þá væntanlega ráð fyrir því að þingið sé ekki til," sagði Sigmundur Davíð. 

„Forseti er fullviss um að forsætisráðherra hæstvirtur er ennþá til og það verða gerðar ráðstafanir til að kanna hvort hún geti komið í þinghúsið," sagði Árni Þór.

Gert er ráð fyrir að þingfundur standi fram yfir miðnætti en ljóst þykir að annarri umræðu um málið ljúki ekki fyrr en í næstu viku. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert