Eru með allt að 60 mál barna á sinni könnu

Barnaverndarmálum hefur fjölgað um 20% í kjölfar bankahrunsins.
Barnaverndarmálum hefur fjölgað um 20% í kjölfar bankahrunsins. Ásdís Ásgeirsdóttir

Álag á Barnavernd Reykjavíkur er miklum mun meira en annars staðar þekkist í landinu. „Starfsálagið er jafnvel óhóflegt,“ segir Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu.

Á síðasta ári voru yfir 1.500 börn til meðferðar í Reykjavík. Málafjöldinn hjá hverjum starfsmanni er mismikill eftir því hvað hvert mál er alvarlegs eðlis. Starfsmennirnir eru samkvæmt upplýsingum Braga með 25-60 mál á sinni könnu.

Bragi telur að það sé tilviljun að þrjú barnaverndarmál verði tilefni til fréttaumfjöllunar á sama tíma. Þó hafi barnaverndarmálum fjölgað umtalsvert vegna efnahagshrunsins eða um 20% á landsvísu.

„Ég vil vera ærlegur með það að í einu þessara mála urðu einfaldlega hörmuleg mistök, að ég álít,“ sagði hann. „Mistökin voru að mínu viti þau að gripið var til þvingunaraðgerða, sem voru vafasamar í lagalegu tilliti, svo ekki sé meira sagt. Faglega voru þær vondar og í blóra við góða starfshætti að taka barnið af ömmu sinni fyrirvaralaust. Ég get ekki tjáð mig um málið í heild heldur eingöngu þær aðgerðir, sem Barnavernd Reykjavíkur greip til og ég hygg að hafi snert þjóðarsálina, ekki síst í ljósi umræðunnar um gömlu uppeldisstofnanirnar og starfsaðferðir á árum áður og ástandsins í samfélaginu eftir hrun. Viðbrögðin urðu heiftarleg og að sama skapi skiljanleg.“

Bragi segir óréttmætt að dæma Barnavernd Reykjavíkur út frá þessu eina máli auk þess sem kúrsinn í því hafi nú verið leiðréttur. „Gegnumsneitt er vinna Barnaverndar Reykjavíkur fagleg og vönduð í allflestum málum og starfsfólkið þar leggur sig allt fram um að skila sínu verki eins vel og kostur er. Eigi að endurheimta traust verðum við að horfast í augu við að við getum gert mistök í barnaverndinni. En ekki má dæma heila stofnun út frá mistökum í einstöku máli.“

Barnaverndarmálum á landsvísu hefur fjölgað umtalsvert í kjölfar bankahrunsins, eða um 20%. Alls berast um 8 þúsund tilkynningar á ári hverju. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert