Útlendingar læra að stofna fyrirtæki á Íslandi

Þátttakendur og leiðbeinendur á námskeiðinu.
Þátttakendur og leiðbeinendur á námskeiðinu. Nýsköpunarmiðstöð

Árni Páll Árnason félags- og tryggingamálaráðherra útskrifaði á föstudag tíu útlendinga af námskeiðinu Drifkrafti þar sem fjallað er um stofnun og rekstur fyrirtækis á Íslandi.

Í tilkynningu frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands kemur fram að tilgangur námskeiðsins  sé að veita einstaklingum  af erlendum uppruna með viðskiptahugmyndir, leiðsögn við þróun þeirra og að kynnast rekstrarumhverfinu á Íslandi. 

“Bakgrunnur hópsins er frábær, þarna fer fólk með mikla reynslu og menntun, sem svo sannarlega er hægt að virkja betur í íslensku samfélagi,” segir Bjarnheiður Jóhannsdóttir verkefnisstjóri Impru á Nýsköpunarmiðstöð í tilkynningunni.

Fram kemur að viðskiptahugmyndirnar á námskeiðinu hafi verið fjölbreyttar, svo sem hönnun á fatnaði fyrir tangódansara, verslun með vandaðan nærfatnað fyrir konur, vefur til að markaðssetja unga hönnuði, hönnun á heimilisvörum, innflutningur á rafeindatækjum, veitingastaður í íslenskum stíl og listagallerí.

Voru þátttakendurnir frá Bandaríkjunum, Litháen, Póllandi, Írlandi, Ísrael, Kanada og Skotlandi.

Námskeiðið var haldið af Nýsköpunarmiðstöð Íslands með stuðningi Þróunarsjóðs innflytjendamála.  Þá var Vinnumálastofnun var faglegur bakhjarl verkefnisins auk þess sem Alþjóðahús kom að undirbúningi og faglegum stuðningi við verkefnið.

Er tekið fram að námsefni hafi allt verið á íslensku, þannig að nemendur gætu tileinkað sér viðskiptahugtök á íslensku, en mest af mæltu máli farið fram á ensku þar sem þátttakendur hafi staðið misjafnlega hvað varðar skilning á talaðri íslensku.

Árni Páll Árnason og Bjarnheiður Jóhannsdóttir afhenda þátttakenda viðurkenningu við …
Árni Páll Árnason og Bjarnheiður Jóhannsdóttir afhenda þátttakenda viðurkenningu við útskriftina. Nýsköpunarmiðstöð
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert