Segir sig frá meirihlutanum

Friðrik Sigurðsson sveitarstjórnarmaður í Norðurþingi.
Friðrik Sigurðsson sveitarstjórnarmaður í Norðurþingi. Hafþór Hreiðarsson

Friðrik Sigurðsson sveitarstjórnarmaður í Norðurþingi hefur ákveðið að segja skilið við meirihlutann í sveitarstjórninni. Friðrik segir ákvörðun sína stafa af óánægju með afstöðu oddvita meirihlutaflokkanna til sölu á raforkudreifikerfi Orkuveitu Húsavíkur.

„Þetta er búið að eiga sér aðdraganda. Kornið sem fyllti mælinn var afstaða manna til sölu á rafdreifikerfi í sveitarfélaginu. Einnig sú ólýðræðislega aðferðafræði sem hefur verið viðhöfð við það mál,“ sagði Friðrik. 

Hann sagði að ekki sé búið að afgreiða sölu rafdreifikerfisins í sveitarstjórninni. Oddvitar meirihlutalistanna hafi haldið hluthafafund í Orkuveitu Húsavíkur og samþykkt söluna þar, án samþykkis sveitarstjórnar. 

Friðrik var kjörinn í sveitarstjórn fyrir D-lista sem fékk þrjá fulltrúa og myndaði meirihluta með B-lista sem einnig fékk þrjá fulltrúa. Í minnihluta eru S-listi með tvo fulltrúa og V-listi með einn fulltrúa. Meirihlutinn heldur því þrátt fyrir að Friðrik gangi úr honum.

Friðrik kvaðst ætla að sitja áfram í sveitarstjórninni út kjörtímabilið. Hann sagði að tíminn myndi leiða í ljós hvernig hann muni verja atkvæði sínu. „Ég mun klárlega greiða atkvæði gegn þessari ákvörðun með raforkudreifikerfið,“ sagði Friðrik.

Hann segir að gríðarlega mikil óánægja sé í sveitarfélaginu með fyrirhugaða sölu á rafdreifikerfi Orkuveitu Húsavíkur.

Væntanlega verður sveitarstjórnarfundur í þessari viku eða næstu viku.  Friðrik tók ákvörðun um að skilja sig frá meirihlutanum í gær. Hann hefur því ekki tilkynnt hana á sveitarstjórnarfundi en látið félaga sína á D-lista.

Friðrik er formaður skipulags- og byggingarnefndar og einnig formaður æskulýðsnefndar í Norðurþingi. Hann kvaðst ekki ætla að eiga frumkvæði að því að láta af formennsku í nefndunum. „Þetta eru starfsnefndir sem ég treysti mér alveg til að sinna fyrir íbúana,“ sagði Friðrik.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert