Stór hluti ungra á atvinnuleysisskrá aðeins með grunnskólapróf

Yfir 30% þeirra, sem hafa verið atvinnulausir í langan tíma, eru 30 ára og yngri. Langstærstur hluti þessa hóps, eða yfir 77%, hefur aðeins lokið grunnskólaprófi.

Þetta kemur m.a. fram í skýrslu vinnuhóps, sem settur var á fót í september til að fjalla um aðgerðir til að stuðla að virkni atvinnulausra. Var hópnum falið að fjalla um þau úrræði sem standa til boða fólki sem misst hefur atvinnu sína, kanna námsmöguleika þess og gera tillögur um úrbætur. 

Vinnuhópurinn leggur áherslu á að ekki nægi að kynna úrræði til virkni og menntunar fyrir þeim sem eru án atvinnu. Tryggja þurfi með öllum ráðum að fólk nýti þau úrræði sem standi til boða. Í tillögum sínum hvetur hópurinn Vinnumálastofnun til þess að skylda unga atvinnuleitendur til virkni í samræmi við lagaheimildir, enda sé þessi hópur betur settur í námi eða öðrum reglubundnum virkniúrræðum en afskiptalausir á bótum.

Í skýrslu hópsins er bent á að Ísland hafi lengi haft sérstöðu vegna mikils brottfalls nemenda úr framhaldsskólum og einnig vegna síðbúinna námsloka hjá stórum hópi þar sem fólk lýkur námi á þrítugs- og fertugsaldri. Í ljósi mikils atvinnuleysis meðal ungs fólks sé því áríðandi að menntakerfið og vinnumálakerfið bregðist við, hamli sem mest gegn brottfalli og beini sem flestu menntunarlitlu og atvinnulausu ungu fólki í nám á nýjan leik.

Einnig er bent á að þótt áhersla verði lögð á að beina ungu fólki í nám þurfi jafnframt að tryggja öflug virkniúrræði fyrir ungt fólk þar sem rannsóknir hafa sýnt að meirihluti brottfallsnemenda er fráhverfur framhaldsskólanámi.

Í skýrslu vinnuhópsins eru settar fram tillögur sem varða menntunar- og virkniúrræði, starfsþjálfun, sjálfboðaliðastörf, átaksverkefni, styrkta starfsemi Vinnumálastofnunar og samhæfingu úrræða fyrir ungt fólk án atvinnu í Reykjavík. Einnig eru settar fram tillögur um að bæta reglulega upplýsingaöflun um hagi og stöðu atvinnulausra og tillögur um leiðir til að efla samfélagsumræðu um þessi málefni. 

Skýrsla vinnuhópsins

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert