Byggingarsvæði 1055% stærri en um aldamót

Byggingarsvæði á Norðurbakkanum, rétt við miðbæ Hafnarfjarðar
Byggingarsvæði á Norðurbakkanum, rétt við miðbæ Hafnarfjarðar Ragnar Axelsson

Byggingarsvæði á Íslandi stækkuðu um 1055% á 7 ára tímabili, frá 2000 til 2006. Á sama tíma minnkuðu jöklar á Íslandi um 1,63%. Þetta er meðal niðurstaðna Corine – verkefnisins sem starfsfólk Landmælinga og umhverfisráðherra kynntu í dag.

Í verkefninu er landinu skipt í 5 flokka sem greinast svo í 44 mismunandi landgerðir. Ísland var flokkað fyrir árið 2000 annars vegar og árið 2006 hinsvegar og á tímabilinu breyttist um 0,62% af yfirborði Íslands um landgerð og varð langmest breyting á byggingarsvæðum. Alls voru 22,57 kmlögð undir bygingarsvæði á þessum 7 árum, sem er 1055% aukning.

Auk þess stækkuðu iðnaðar- og verslunarsvæði um 20% sem skýrist aðallega af virkjunarframkvæmdum og aukningu sumarbústaðasvæða sem stækkuðu þann flokk um 15%.

Þrátt fyrir þetta einkennist yfirborð Íslands umfram allt af náttúrulegum landgerðum því um 88% landsins fall í þá flokka. Yfirborð íslenskra jökla hefur minnkað um 1,63% frá aldamótum en stærstu landgerðirnar eru mólendi, mosi og kjarr sem þekja 35% landsins. Ógróin hraun og urðir eru 23%, hálfgróið land 13%, jöklar 10,5% og mýrar 6,3%.

Verkefnið sem nefnist CORINE (Coordination of Land Information on the Environment) var unnið í samvinnu við sveitarfélög landsins og fjölda íslenskra stofnana. Sérfræðingar Umhverfisstofnunar Evrópu sáu um ráðgjöf og gæðaeftirlit.

Niðurstöðurnar eru birtar í heild sinní skýrslu sem gefin hefur verið út (http://atlas.lmi.is/corine/) og á vefsjá Landmælinga (http://atlas.lmi.is/corine/) sem opnuð var í dag.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert