Frostavetur falli Icesave

Jóhanna Sigurðardóttir.
Jóhanna Sigurðardóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Jóhanna Sigurðardóttir sagði á Alþingi í dag að verði Icesave-frumvarpið ekki samþykkt verði ekki í hendi þau lán, sem kallað hafi verið eftir. Tryggingasjóður innistæðueigenda geti þá ekki staðið við skuldbindingar sínar og afleiðingin yrði greiðslufall og væntanlega lækkað lánshæfismat Íslands, sveitarfélaga og stórfyrirtækja.

„Við gætum verið að koma í veg fyrir allar þær stórframkvæmdir, sem þá verða á döfinni og menn hafa verið að kalla eftir og leita eftir fjármagni í," sagði Jóhanna, og nefndi m.a. HS Orku, Landsvirkjun og Orkuveitu Reykjavíkur. „Ég held að menn væru að kalla yfir sig algeran frostavetur í atvinnuuppbyggingu ætli þeir að láta þetta mál liggja," sagði Jóhanna.

Hún sagði, að ýmislegt, sem sagt hefði verið í ræðustóli Alþingis í tengslum við Icesave-umræðuna hefði gengið fram af sér. Því hefði verið haldið fram að íslenska ríkisstjórnin og embættismenn væru fyrst og fremst að tryggja hagsmuni Breta og Hollendinga en ekki Íslendinga.

„Auðvitað vita menn að þetta er alrangt og furðulegt að þessu skuli vera haldið fram í ræðustóli á Alþingi. Staðreyndin er að ríkisstjórnin hefur gert allt sem í hennar valdi stendur til að ná hagstæðum samningum fyrir íslensku þjóðina," sagði Jóhanna, sem fór í ræðunni ýtarlega yfir ýmis atriði, sem hafa verið í umræðunni um Icesave-málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert