Icesave-málið rætt fram á nótt

Í þingsal er sjaldan samhljómur með fundarmönnum.
Í þingsal er sjaldan samhljómur með fundarmönnum. Ómar Óskarsson

Stjórnarandstaðan á Alþingi gagnrýnir nú meirihlutann fyrir að ætla að ræða Icesave-málið fram á kvöld og nótt. Greiða á atkvæði rétt í þessu hvort haldinn skuli næturfundur í kvöld, til að ræða málið.

Fjölmargir stjórnarandstæðingar hafa tekið til máls, úr öllum stjórnarandstöðuflokkum, og sakað stjórnarþingmenn um að vilja ekki ræða málið og að ætla ekki að mæta á kvöldfundinn eða næturfundinn. Segjast þeir áður hafa rætt málið fyrir tómum sal, þar sem enginn hafi verið að hlusta nema upptökutæki Alþingis.

Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, krafðist þess meðal annars að þeir þingmenn sem greiddu því atkvæði að málið yrði rætt í kvöld og nótt gerðu grein fyrir atkvæði sínu og hvort þeir hygðust mæta og ræða málið og hlýða á ræður eða ekki. Sagði hún enga sannfæringu fyrir málinu á meðal þeirra sem vilja samþykkja Icesave-frumvarpið.

Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, sagði að átakanlegt hefði verið að horfa upp á ráðherra ríkisstjórnarinnar þreytta og úrilla í þingsalnum að undanförnu, sagði hún að þeir hefðu ekki gott af næturfundi núna og uppskar nokkurn hlátur.

Stjórnarliðar tóku einnig til máls og gagnrýndi Kristján L. Möller samgönguráðherra m.a. Tryggva Þór Herbertsson, þingmann sjálfstæðisflokksins, um tvískinnung í Icesave-málinu. Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra sagði það svo sjálfsagt að ræða Icesave-málið fram á kvöld þar sem gríðarlega mörg verkefni væru ókláruð í þinginu.

Sagðist hann ekki myndu vilja vera á sjó eða í sauðburði með þeim þingmönnum sem kveinkuðu sér yfir því að þurfa að vinna fram á kvöld.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert