Sprelllifandi vináttuhjarta

Bláir brosandi karlar hafa verið tíðir gestir í Hvassaleitisskóla í nóvembermánuði en undanfarið hafa nemendur, foreldrar og starfsfólk skólans einbeitt sér sérstaklega að því að vera vinir. Karlarnir eru tákn vináttuverkefnisins Vinir í Hvassó, sem unnið er í samstarfi skólans og heimilanna í hverfinu.

Þennan mánuðinn hafa samskipti, vinátta og einelti - eða baráttan gegn því - fengið sérstakan sess í skólastarfinu.

Þrátt fyrir bláan lit vináttumánaðarins fengu nemendur og starfsfólk skilaboð um að mæta rauðklædd í skólann í dag því mikið stóð til. Eftir að hafa gætt sér á ljúffengum bláum broskallavináttukökum drifu krakkar og kennarar sig út og mynduðu risastórt rautt hjarta á skólalóðinni.

Á laugardag verður svo lokahnykkur átaksins á jólaföndurdegi skólans þegar 300 bláum vinablöðrum verður sleppt út í loftið undir stjórn sjálfs Sveppa. Blöðrurnar eru álíka margar og nemendurnir og vinirnir í skólanum. En þótt vinamánuðinum ljúki senn heldur vináttan áfram.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert