Segir sig frá öllum trúnaðarstörfum

Björn Valur Gíslason, lengst til vinstri, ásamt fleiri þingmönnum á …
Björn Valur Gíslason, lengst til vinstri, ásamt fleiri þingmönnum á Alþingi. mbl.is/Heiðar

Björn Valur Gíslason, þingmaður Vinstri grænna og fyrrverandi skipstjóri, sagði sig í dag frá öllum trúnaðarstörfum fyrir Félag skipstjórnarmanna í kjölfar deilna á þingi Farmanna- og fiskimannasambands Íslands vegna fyrirhugaðs afnáms sjómannaafsláttar. Björn Valur er varaformaður fjárlaganefndar.

„Ég var beðinn um að koma í dag og ræða um skattamál, þ.á.m. sjómannaafsláttinn, og í kjölfarið var borin upp tillaga af félagsmanni um það að ég yrði látinn víkja úr klúbbnum," segir Björn Valur. Samkvæmt reglum félagsins er hinsvegar ekki hægt að reka þá sem fengið hafa kosningu.

„Þegar á það var bent kom upp önnur tillaga í kjölfarið þar sem var skorað á mig að segja mig frá öllum trúnaðarstörfum, þeirri tillögu var vísað frá en umræðan hélt áfram á þessa vegu og sú hugmynd kom upp að vísa „máli mínu" eins og það var orðað til stjórnar skipstjórnarfélagsins til úrlausnar. Þá ákvað ég að taka þann kaleik af þeim að þurfa að fjalla um mig þar og sagði þeim að ég myndi segja af mér öllum trúnaðarstörfum fyrir Farmanna- og fiskimannasambandið og  Félag skipstjórnarmanna  þannig að þeir þyrftu ekki að eyða tíma í að ákveða örlög mín þar."

Mikill hiti var í mönnum á þinginu í dag vegna afnáms sjómannaafsláttarins og setu Björns í fjárlaganefnd og orðar Björn Valur það þannig að hann hafi ákveðið að létta þessum áhyggjum af þeim. „Það voru fulltrúar þarna inni sem töldu mig ekki þess verðan að vera í þeirra félagsskap, þeir vilja mynda þarna stéttafélag þar sem allir eru sammála en ég hef aldrei verið í slíku félagi, sem rúmar ekki margar skoðanir og þar á ég ekki heima.

Ég hef nú verið þarna innan raða í 23 ár og kveð það starf með miklum söknuði. Ég tel mig hafa sinnt mínum trúnaðarstörfum í gegnum árin eins vel og vandlega eins og ég get en þetta var greinilega vilji félagsmanna og þá beygir maður sig undir það."

Hann hefur þó ekki sagt sig úr félaginu sjálfu og hyggst ekki gera það. „Ég er ennþá félagsmaður og borga glaður mitt félagsgjald þegar að því kemur eins og ég hef gert í öll þessi ár og óska þeim þess að þeir fari vel með þá peninga og góðs gengis um aldur og ævi."



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert